
Bandarískir diplómatar kveðja ræðisskrifstofu í Chengdu
BBC hefur eftir talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins að ræðisskrifstofan hafi skipað mikilvægan sess í samskiptum ríkisins við Vestur-Kína síðustu þrjátíu og fimm árin. Ráðuneytið harmi ákvörðun kínverskra yfirvalda og leiti nú allra leiða til að halda uppi góðum samskiptum við fólkið á svæðinu.
Íbúar í Chengdu flykktust að ræðisskrifstofunni um það leyti sem starfsmennirnir yfirgáfu bygginguna, bandaríski fáninn var dreginn niður og starfsmenn kínverska utanríkisráðuneytisins tóku yfir.
Svar kínverskra yfirvalda við lokun ræðisskrifstofunnar í Houston
Kínversk yfirvöld fyrirskipuðu lokun ræðisskrifstofunnar fyrir þremur dögum og gáfu starfsfólki þriggja daga frest til að yfirgefa skrifstofuna. Lokun ræðisskrifstofunnar er svar við ákvörðun bandarískra yfirvalda um að loka kínversku ræðisskrifstofunni í Houston í Texas á miðvikudaginn í síðustu viku.
Í tilkynningu frá kínverska utanríkisráðuneytinu vegna lokunarinnar segir að Bandaríkin beri alfarið ábyrgð á þeirri slæmu stöðu sem nú er uppi í samskiptum ríkjanna. Lokun ræðisskrifstofunnar í Chengdu sé réttmæt og óhjákvæmilegt viðbragð við aðgerðum Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði lýst því yfir að með lokun ræðisskrifstofunnar í Houston sýndu bandarísk yfirvöld að stórtækur hugverkaþjófnaður Kínverja í Bandaríkjunum yrði ekki liðinn og Marco Rubio, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur lýst því yfir að ræðisskrifstofan í Houston hafi verið miðstöð kínverskra njósna í Bandaríkjunum.