Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Aldrei fleiri kórónuveirutilfelli greinst í Ástralíu

27.07.2020 - 09:29
epa08529864 People in hazardous material overalls are seen outside of a public housing tower along Racecourse Road in Melbourne, Australia, 06 July 2020. Victoria?s Premier has ordered the immediate lockdown of nine public housing towers in Flemington and North Melbourne after the state registered 108 new coronavirus cases.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
532 ný kórónuveirutilfelli greindust í Victoriu-ríki í Ástralíu síðasta sólarhringinn og er það mesti fjöldi sem greinst hefur með sjúkdóminn í landinu á einum degi frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Fyrra metið var frá 28. mars, en þann dag greindust 497 ný tilfelli.

Hópsmit í milljónaborginni Melbourne í Victoria hafa vakið miklar áhyggjur ástralskra yfirvalda undanfarið.

Ástralía var eitt þeirra ríkja sem komst nokkuð vel frá fyrstu bylgju faraldursins. Staðfest smit voru ekki nema 14.935 og andlát af völdum veirunnar 161. Þetta óttast yfirvöld nú að muni breytast, en sex hafa látist af völdum kórunuveirunnar síðasta sólarhring að því er Reuters fréttaveitan hefur eftir Daniel Andrews ríkisstjóra Victoria.

17 kórónuveirutilfelli greindust þá í nágrannaríkinu New South Wales í gær, en ríkin tvö eru þau ríki Ástralíu þar sem flest smit hafa greinst frá upphafi. Lengst framan af greindust einungis fá tilfelli í Ástralíu daglega, en undanfarnar vikur hefur smituðum tekið að fjölga hraðar í þéttbýlustu borgum ríkjanna.

Gripið var til þess ráðs í byrjun júlí að loka stórum hlutum Melbourne um sex vikna skeið og skylda íbúa til að bera andlitsgrímur á almannafæri. Eins lokuðu nágrannaríkin landamærunum sem þau deila með Victoria. Yfirvöld segja nú að mögulega verði þörf á að framlengja lokanir eigi að takast að hefta útbreiðslu veirunnar.

„Við erum að sjá að margir fara í vinnu af einni eða annarri ástæðu þrátt fyrir að vera með einkenni. Þetta má ekki halda áfram svona. Annars verða lokanirnar lengri en þær þurfa og við munum því miður sjá fleiri deyja,“ sagði Andrews.

10 létust af völdum kórónuveirunnar í Victoria á sunnudag og hafa ekki látist fleiri á einum degi í ríkinu frá því faraldurinn hófst. Flestir hinna látnu voru íbúar á hjúkrunarheimilum í ríkinu.