650 þúsund andlát vegna COVID-19

27.07.2020 - 17:57
epaselect epa08479378 An Activist places one hundred and ten crosses, as a way of denouncing the errors made by the Government in managing the coronavirus crisis, during a protest organized by the NGO Rio de Paz, on Copacabana beach , Rio de Janeiro, Brazil, 11 June 2020.  EPA-EFE/ANTONIO LACERDA
Brasilíumenn mótmæltu því á táknrænan hátt á dögunum á Copacabana ströndinni hve illa stjórnvöld brugðust við farsóttinni. Mynd: EPA-EFE - EFE
COVID-19 faraldurinn hefur orðið 650 þúsund manns að bana frá því að hann blossaði upp í lok síðasta árs. Fjöldinn hefur tvöfaldast síðustu tvo mánuði.

Samkvæmt gögnum sem AFP fréttastofan hefur aflað sér hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og víðar höfðu 650.011 dáið af völdum COVID-19 klukkan fjögur í dag. Látnum hefur fjölgað um rúmlega eitt hundrað þúsund frá 9. júlí. Fyrr í dag náðu staðfest smit kórónuveirunnar þrjú hundruð þúsundum í Bretlandi. Þar létust sjö síðastliðinn sólarhring.

Sífellt berast fréttir af því að aðgerðir hafi verið hertar á ný til að hamla dreifingu veirunnar. Bresk stjórnvöld tilkynntu til dæmis í gær að ákveðið hefði verið að ferðalangar sem kæmu frá Spáni skyldu fara í hálfs mánaðar sóttkví við heimkomuna. Aðstoðar-heilbrigðisráðherra landsins segir að ekki verði hjá því komist vegna þess hve smitum hafi fjölgað á Spáni að undanförnu. Eftir allar þær fórnir sem þjóðin hafi fært meðan fólki var bannað að fara út úr húsi vegna veirunnar sé ekki boðlegt að ástandið fari í það far aftur.

Þá tilkynnti heilbrigðisráðherra Þýskalands að reglur um sýnatöku yrðu hertar þegar ferðafólk kæmi heim frá löndum þar sem veirusmitum færi fjölgandi. 130 lönd eru á hættulista þýsku lýðheilsustofnunarinnar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi