Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Villa í skráningu kom í veg fyrir heimkomusmitgát

26.07.2020 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Villa í skráningarblaði sem fólk fyllir út þegar það kemur til landsins varð til þess að einstaklingur, búsettur hér á landi, var ekki kallaður aftur í sýnatöku. Ekki er skilyrði að skrá kennitölu ef viðkomandi fyllir eyðublaðið út á ensku, eins og er þegar það er gert á íslensku. „Þetta verður skoðað í vikunni,“ segir sérfræðingur á sóttvarnasviði landlæknis.

Þrjú innanlandssmit greindust á veirufræðideild Landspítalans í gær.  Einn þeirra sem reyndist jákvæður kom til landsins þann 15. júlí, tveimur dögum eftir að reglur um svokallaða heimkomusmitgát tóku gildi.

Þeir sem búsettir voru á Íslandi eru þá skimaðir við komuna til landsins og aftur boðaðir í sýnatöku fjórum til fimm dögum seinna.  

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að viðkomandi hefði hins vegar farið eftir gamla kerfinu. Sýnatakan á landamærunum var neikvæð og hann var ekki kallaður aftur í skimun fyrir veirunni. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði landlæknis, segir í samtali við fréttastofu að þetta megi rekja til villu í rafræna skráningarblaðinu.  

Fylli fólk út skráningarblaðið á ensku er ekki skilyrði að setja inn kennitölu líkt og er í íslensku útgáfunni. Enda hafi það fyrst og fremst verið hugsað fyrir erlenda ferðamenn. Því hafi viðkomandi ekki fengið sjálfvirkt boð um að koma í sýnatöku.

Kamilla segir marga þó hafa fylgt eftir reglum um heimkomusmitgát þótt þeir hafi fyllt skráningaformið á ensku og í einhverjum tilvikum hafa vinnuveitendur líka verið vakandi fyrir því að senda fólk í sýnatöku aftur eftir að það kom til landsins. „Þetta verður skoðað í vikunni hvernig hægt er að auðvelda aðgengi fólks að þessu að vekja athygli þess á ferlinu.“ Maðurinn er í einangrun og sex hafa verið settir í sóttkví. Þeir fara allir í sýnatöku en tveir voru farnir að sýna einkenni.

Smitrakning er nú í gangi við þau þrjú smit sem greindust í gær en henni er að mestu leyti lokið vegna tveggja smita sem greint var frá á föstudag.  Í báðum tilvikum hefur raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar leitt í ljós að þar er um afbrigði af kórónuveirunni sem ekki hafa fundist hér á áður.  

Í öðru tilvikinu hafa böndin beinst að Ísrael þótt vitað sé að sá sem flutti veiruna til landsins hafði einnig ferðast til annarra Evrópulanda. Kamilla segir að það ætti liggja fyrir á morgun hvaðan hin veiran væri að koma.

Alls eru nú 15 í einangrun samkvæmt vefnum COVID.is. 135 eru í sóttkví.