Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Vann sér inn“ áframhaldandi dvöl í fangaklefa

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í dag. Meðal þeirra verkefna sem lögregla fékkst við var að handtaka karlmann við lögreglustöðina á Hverfisgötu í morgun. Sá hafði losnað úr fangaklefa skömmu áður, en neitaði að fara, kom ítrekað aftur og hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu um að fara á brott. „Hann vann sér inn áframhaldandi dvöl hjá lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu.

Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna að tilkynnt var um líkamsárás í Breiðholti á 11. tímanum í morgun og hafði lögregla afskipti af tveimur mönnum vegna þess.

Þá hafði lögregla afskipti af konu í verslunarmiðstöð í Kópavogi, hún hafði setið þar að snæðingi en hafði ekki fjármuni til að greiða reikninginn.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir