Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur of snemmt að fullyrða um aðra bylgju hér á landi

26.07.2020 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Sérfræðingur á sóttvarnasviði hjá landlæknisembættinu segir of snemmt að fullyrða um aðra bylgju faraldursins. Þrjú ný innlandssmit greindust á veirufræðideild Landspítalans í gær og eru tugir komnir í sóttkví.

Tvö innanlandssmit greindust á fimmtudag, annað hjá karlmanni á þrítugsaldri en hitt hjá karlmanni á tvítugsaldri. Þá hafði ekkert smit greinst síðan í byrjun mánaðarins.

Í gær greindust svo þrjú innanlandssmit til viðbótar, þar af einn sem hafði verið á knattspyrnumótinu Rey Cup í Laugardal.  Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi hjá ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að færri hafi þurft að fara í sýnatöku vegna þess smits en upphaflega var talið.

Annað smitið er hjá einstaklingi sem kom til landsins frá útlöndum þann 15. júlí. Þá höfðu reglur um svokallaða heimkomusmitgátt tekið gildi. Kamilla Rut Sigfúsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði hjá Landlæknisembættinu, segir að viðkomandi hafi hins vegar farið eftir gamla ferlinu. 

Sýnið hjá honum var neikvætt við komuna til landsins en hann varð síðan veikur, er kominn í einangrun og hafa sex verið settir í sóttkví. Þeir eru allir á leiðinni í sýnatöku en tveir þeirra eru farnir að sýna einkenni. 

Þriðja smitið tengist síðan eldri manninum sem greindist á fimmtudag og hafa tólf verið settir í sóttkví í tengslum við það. Komið hefur í ljós að þar er á ferðinni nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem ekki hefur greinst áður hér á landi. „Við vitum ekki nákvæmlega hvaðan þessi veirutýpa kemur en við höfum ekki séð hana áður. Sá sem er talinn hafa borið veiruna til landsins hafði verið í Ísrael en líka í öðrum Evrópulöndum.“

Hún telur of snemmt að fullyrða að hin svokallaða önnur bylgja faraldursins sé farin af stað hér á landi líkt og óttast er í ýmsum löndum Evrópu.  „Á meðan meirihlutinn er enn rekjanlegur þá er ekki borðleggjandi að svo sé. En við erum á tánum og erum að fylgjast með, huga að leiðum til að bregðast við ef eitthvað þvíumlíkt gæti farið af stað.“