
Rúmlega 16 milljónir hafa greinst með COVID-19
Enn í hröðum vexti
Farsóttin er enn í örum vexti víða um heim, einkum í Bandaríkjunum, Mexíkó, Brasilíu, Perú og fleiri Suður-Ameríkuríkjum, sem og í Rússlandi og á Indlandi. Þá hefur færst endurnýjaður kraftur í veiruna í nokkrum löndum þar sem tekist hafði að hefta útbreiðslu hennar til muna.
Þannig fer nýsmitum nú aftur mjög fjölgandi á Spáni, og þótt ástandið þar sé hvergi nærri jafn slæmt og það var þegar verst lét er það nógu slæmt til að mörg ríki ráða nú aftur eindregið frá ónauðsynlegum ferðum til Spánar og skikka fólk sem þaðan kemur í sóttkví. Bretland bættist í þann hóp á miðnætti og þar þurfa nú allir Spánarfarar að fara í sóttkví í tvær vikur eftir heimkomu.
Í Ástralíu, þar sem nýgengi COVID-19 var orðið afar lágt fyrir nokkrum vikum greindust í gær 459 ný tilfelli. Var þetta 21. dagurinn í röð sem ný smit greinast í hundraðatali fremur en tugatali þar syðra. Flest smitin greinast í Viktoríuríki, þar sem tíu dauðsföll af völdum farsóttarinnar voru staðfest í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring.
Þá hafa greinst yfir 1.000 ný tilfelli í Frakklandi, tvo daga í röð. álíka mörg og greindust daglega um það leyti sem fyrst var létt á hvers kyns takmörkunum þar í landi í maí, eftir tveggja mánaða útgöngubann og lokanir.