Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rúmlega 16 milljónir hafa greinst með COVID-19

26.07.2020 - 06:30
epa08564810 Graduates of Riga Technical University participate in drive-in graduation at Spilva airport, in Riga, Latvia, 24 July 2020.This year, when adjusting to the national assembly limits in connection with Covid 19, the graduation of Riga Technical University takes place in a drive-in format where approximately 1,000 graduates arrived in cars, receive diplomas and enjoy a concert dedicated to them.  EPA-EFE/Toms Kalnins
COVID-19 hefur greinst í nær öllum löndum heims og haft margvísleg áhrif á öllum sviðum mannlífsins. Þessi mynd er frá óvenjulegri útskriftarathöfn tækniháskólans í Riga í Lettlandi, þar sem nýútskrifaðir stúdentar fengu prófskírteinin afhent inn um bílglugga. Mynd: EPA-EFE - EPA
Staðfest kórónaveirusmit í yfirstandandi heimsfaraldri eru orðin rúmlega 16 milljónir talsins, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans í Maryland í Bandaríkjunum, nánar tiltekið16 milljónir og 47 þúsund. Dauðsföll af völdum COVID-19 eru tæplega 645.000 og hartnær 9,3 milljónir smitaðra hafa meira og minna náð sér af sjúkdómnum.

Enn í hröðum vexti

Farsóttin er enn í örum vexti víða um heim, einkum í Bandaríkjunum, Mexíkó, Brasilíu, Perú og fleiri Suður-Ameríkuríkjum, sem og í Rússlandi og á Indlandi. Þá hefur færst endurnýjaður kraftur í veiruna í nokkrum löndum þar sem tekist hafði að hefta útbreiðslu hennar til muna.

Þannig fer nýsmitum nú aftur mjög fjölgandi á Spáni, og þótt ástandið þar sé hvergi nærri jafn slæmt og það var þegar verst lét er það nógu slæmt til að mörg ríki ráða nú aftur eindregið frá ónauðsynlegum ferðum til Spánar og skikka fólk sem þaðan kemur í sóttkví. Bretland bættist í þann hóp á miðnætti og þar þurfa nú allir Spánarfarar að fara í sóttkví í tvær vikur eftir heimkomu.

Í Ástralíu, þar sem nýgengi COVID-19 var orðið afar lágt fyrir nokkrum vikum greindust í gær 459 ný tilfelli. Var þetta 21. dagurinn í röð sem ný smit greinast í hundraðatali fremur en tugatali þar syðra. Flest smitin greinast í Viktoríuríki, þar sem tíu dauðsföll af völdum farsóttarinnar voru staðfest í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring.

Þá hafa greinst yfir 1.000 ný tilfelli í Frakklandi, tvo daga í röð. álíka mörg og greindust daglega um það leyti sem fyrst var létt á hvers kyns takmörkunum þar í landi í maí, eftir tveggja mánaða útgöngubann og lokanir.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV