Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ríkið verði að setja aukið fé í geðheilbrigðismál

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Brýnt er að ríkið veiti auknum fjármunum til geðheilbrigðismála, segir forstjóri Landspítalans. Viðbúið sé að kórónuveirufaraldurinn verði til þess að fleiri þurfi á geðþjónustu að halda í haust og vetur.

Þótt ekki sé unnt að sýna fram á það með rannsóknum hafa margir spáð því að áhrifa kórónuveirufaraldursins fari að gæta í haust og vetur í því að þeim fjölgi sem þjást vegna geðrænna vandamála.

„Það sem við vitum hins vegar úr fyrri krísum og kreppum af ýmsu tagi, bæði af efnahagslegum toga og stríðshörmungum og annað slíkt þar sem álagið er mikið, er að við sjáum að nokkrum mánuðum til árum seinna þá leitar fólk í auknum mæli hjálpar vegna geðrænna vandamála. Þannig að það má alveg búast við þessu og við verðum að vera viðbúin,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Stjórnvöld hafa varið auknum fjármunum til geðheilbrigðismála á undanförnum árum. Í vor voru framlög til geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslustöðva um allt land aukin um fimm hundruð og fjörutíu milljónir króna.

„En það hefur líka fé komið í að byggja upp ákveðna þætti innan geðþjónustu Landspítala og ég tel að það verði að huga enn frekar að því á næstu mánuðum og árum. Ég held að það verði ekki hjá því komist,“ segir Páll.

Að það þurfi aukið fjármagn frá ríki í þetta?

„Já,“ svarar Páll.

Páll segir ekki unnt að nefna upphæð fyrr en þörfin fyrir geðþjónustu hafi verið betur skilgreind. Óvenju mikil aðsókn hefur verið í sumar að geðdeild Landspítalans. Nú þegar er óvenju mikil aðsókn að geðdeild Landspítalans.

Nær geðþjónusta Landspítalans núna að anna þeirri eftirspurn sem er eftir þjónustunni?

„Það er erfitt að svara því nákvæmlega. Ég vil hugsa um, á sama hátt og rétt er að hugsa um heilbrigðisþjónustu almennt, sem þjónustunet, þá á það ekki síst við geðheilbrigðisþjónustu, að við hugsum það hvernig við veitum þjónustuna ekki út frá einstökum stofnunum heldur út frá einstaklingum sem þurfa þjónustu,“ segir Páll.

Samvinna við heilsugæslustöðvar og aðra sem veita geðheilbrigðisþjónustu skipti miklu. Nauðsynlegt sé að bæta geðheilbrigðisþjónustu. Þeim fjölgi sem verða öryrkjar vegna geðrænna vandamála. 

„Þannig að við verðum í  vaxandi mæli að setja það fjármagn í þann málaflokk sem eðlilegt er,“ segir Páll.