Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Okkur var boðið kampavín, svo fóru þau úr herberginu“

Mynd: Ásrún Magnúsdóttir / Aðsend

„Okkur var boðið kampavín, svo fóru þau úr herberginu“

26.07.2020 - 09:39

Höfundar

Hjónin Ásrún Magnúsdóttir og Atli Bollason urðu við þeirri óvenjulegu bón frá myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni að stunda kynlíf fyrir framan myndavél fyrir verk sem listamaðurinn var að setja upp í París. „Við elskuðum hvort annað svo þetta var ekki flókið.“

Atli Bollason gleymir því aldrei þegar hann hitti eiginkonu sína og barnsmóður, Ásrúnu Magnúsdóttur, í fyrsta skipti. „Ég varð mjög heillaður af henni. Það var náttúrulega bara útgeislunin en svo þótti mér hún líka alveg óheyrilega sæt. Og þykir enn,“ segir hann. Ásrún man þetta líka enda rifjar eiginmaðurinn fyrsta fundinn reglulega upp. „Ég er alltaf að heyra þessa sögu. Síðast bara um helgina,“ segir hún sem laðaðist líka að eiginmanninum við fyrstu kynni. „Mér fannst og finnst svo mikill æsingur í kringum Atla, sem ég fíla. Það er margt í gangi og mikið að gerast og ég heillaðist af því.“

„Þetta eru samfarir með upphafi og enda“

Atli segir þau hjónin hafa lagt áherslu á það í sambandi sínu að fara sínar eigin leiðir. „Við bindum bagga okkar ekki sömu hnútum og samferðamenn. Við forðumst rútínur sem við greinum í kringum okkur.“ Það er mögulega ástæða þess að þau tóku erindinu frá Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni bara fagnandi, þó það væri vægast sagt óvenjulegt. „Kristín Anna sameiginleg vinkona okkar hefur samband við okkur og spyr hvort við getum komið að borða desert með sér, Ragga og Ingibjörgu konu Ragnars, á Snaps.“ Þau þáðu boðið, hittu þríeykið á Snaps og fengu sér desertvín og sinn hvorn eftirréttinn. Þau hlýddu á Ragnar sem leiddi þau í gegnum áform sín á myndlistarsýningu sem hann hugðist setja upp í Palais de Tokyo í París um haustið. „Hann var með margrása videóverk sem hét Scenes from western culture. Hann lýsti því á einfaldan hátt.“ 

Ásrún segir að hann hafi lýst verkinu sem banal og dekadent senum úr hversdagslífi Vesturlandabúa. „Hann var með skissur af öllum senunum sem hann ætlaði að skjóta og síðast sagði hann okkur frá því sem hann vildi vita hvort við hefðum áhuga á að taka þátt í.“ Senan sem Ragnar bað parið að taka þátt í átti að sýna ungt millistéttarpar að elskast í minimalísku herbergi. „Þetta eru samfarir með upphafi og enda,“ segir Atli. 

Treystu Ragnari sem listamanni

Parið þekkti Ragnar ekki mikið þó þau hafi vitað af honum og hann af þeim „en þau þekktu okkur og fannst við passa í þetta. Þau höfðu orð á því að þau vildu ekki auglýsa eftir fólki. Kannski töldu þau að þau myndu ekki fá rétta fólkið heldur fólk sem fengi kynferðislega fróun úr því að performera fyrir aðra.“ Þau kvöddu Ragnar og samþykktu að hugsa málið en það tók ekki langan tíma. „Þegar við löbbuðum úr af Snaps sögðum við: Erum við ekki bara til í þetta? Þetta var bara þannig. Ég treysti Ragnari sem listamanni og öllu teyminu hans,“ segir Ásrún og Atli tekur undir.

„Þetta snýst um ástina og nándina“

Senan var tekin upp í fínni íbúð á Mýrargötunni. Þar var mjög fáliðað kvikmyndateymi; tökumaður, Ragnar og hljóðmaður og parið. Eftir að kveikt hafði verið á upptöku yfirgáfu allir herbergið til að bíða úti í bíl nema Atli og Ásrún. „Við vorum ekki búin að ákveða neitt hvernig við ættum að vera. Við fengum einhverjar smá leiðbeiningar en við reyndum að gleyma stund og stað. Að vera ómeðvituð um hvað við værum að gera og fyrir hvern. Það var ekkert leikið, við bara elskuðum hvort annað svo það var ekki flókið,“ segir Ásrún. En var þetta rómantískt? „Já, þetta var svolítið rómantískt,“ segir Atli og Ásrún er sammála því. „Okkur var boðið upp á kampavín áður en þau fóru út úr herberginu. Þetta var smá eins og að vera í fríi á fínu hóteli í París.“ Teymið var ánægt með frammistöðu parsins í verkinu sem hreyfði við þeim. „Þegar Tommi tökumaður horfði á þetta þá grét hann, honum þótti þetta svo fallegt,“ segir Atli. „Þetta snýst jafn mikið um ástina og nándina og sjálfar samfarirnar,“ segir Ásrún.

Foreldrar parsins hafa séð verkið og segir Atli að mamma hans hafi heyrt röddina í syninum á Listasafni Reykjavíkur og þá áttað sig á því að hann væri hluti af verkinu. „Þá snýr hún sér við og fer að pæla í þessu,“ segir Atli. „Mamma og pabbi sáu þetta í París. Við höfðum ekki sagt neinum þetta þannig en svo bara sendir pabbi mér skilaboð og segir: Gaman að rekast á litlu fjölskylduna í Palais de Tokyo,“ rifjar Ásrún upp. Og ætli þátttakan í verkinu hafi dýpkað samband Ásrúnar og Atla? „Við erum allavega enn saman svo kannski dýpkaði þetta eitthvað. Þetta dýpkaði allavega samband mitt við tengdafjölskylduna,“ segir Ásrún og hlær. 

„Þarna var litla baunin í maganum á mér“

Sjálf sá Ásrún verkið í Kaupmannahöfn með kollega sínum. „Mér fannst svolítið erfitt að vera ekki með þér heldur einhverjum öðrum,“ segir hún og snýr sér að eiginmanninum. „En það var gaman að sjá þetta því þetta er bara ein sena í miklu stærra verki og þegar maður sá þetta með hinum verkunum er þetta mjög flott. Ég gat svolítið slitið mig frá þessu og var bara stolt. Og þarna var litla baunin í maganum á mér,“ segir Ásrún sem var ófrísk frumburði hjónanna þegar senan var tekin upp. „Þetta var bara fallegt.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við þau Ásrúnu og Atla í Ástarsögum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Myndlist

Heppnir geta fundið yfirgefna list á víðavangi

Menningarefni

„Þá fyrst fattaði ég að Ísold væri fyrirsæta“

Myndlist

Ragnar Kjartans setur upp sápuóperu í Moskvu