Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mun skoða lagasetningu um sjálfstæði stjórnarmanna

26.07.2020 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Forsætisráðherra segir ekki óeðlilegt að lífeyrissjóðir settu sér viðmið í sinni fjárfestingarstefnu um réttindi vinnandi fólks. Athugasemdir Seðlabankastjóra um að tryggja þurfi sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða, mögulega með lögum, verða teknar til skoðunar.

Eftir að Icelandair sleit viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og sagði upp öllum flugfreyjum lýsti stjórn VR því yfir að stjórnarmenn sem VR skipaði í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna sniðgengju eða greiddu atkvæði gegn þátttöku lífeyrissjóðsins í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í framhaldinu að stjórnarmönnum yrði skipt út ef þeir færu ekki að tilmælunum. Ragnar Þór dró yfirlýsingu sína til baka þremur dögum síðar og sömuleiðis stjórn VR.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri sagði í fréttum RÚV á föstudag að tryggja þyrfti sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða í samþykktum sjóðanna og mögulega með lagabreytingu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að stjórnarmenn lífeyrissjóða séu sjálfstæðir en telur það nú þegar tryggt með lögum. 

„Nú hefur Seðlabankastjóri, sem fer auðvitað með fjármálaeftirlitið, sem hefur með þetta að gera, sagt að það þurfi að skoða sérstaklega regluverkið í kringum þetta sjálfstæði, við að sjálfsögðu munum taka það til skoðunar ef eitthvað þarf að fara yfir þar,“ segir hún.

Katrín segir að lögum samkvæmt skuli lífeyrissjóðir setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingarstefnu sinni. Æskilegt sé að í henni sé fjallað um þau samfélagslegu og siðferðislegu viðmið sem þeir vilji leggja áherslu á í fjárfestingum sínum.

„Ég teldi ekkert óeðlilegt sömuleiðis að lífeyrissjóðir settu sér einnig viðmið í sinni fjárfestingarstefnu um réttindi vinnandi fólks. En ég tel eðlilegt að slíkar ákvarðanir séu teknar í gegnum stefnumótun en ekki í gegnum einstaka fjárfestingarákvarðanir,“ segir Katrín.