Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Líðan Jóakims prins sögð stöðug

Jóakim Danaprins og fjölskylda. Frá vinstri: Nikolaj prins, Marie prinsessa eiginkona Jóakims, Athena prinsessa, Jóakim Danaprins, Felix prins og Henrik prins.
Jóakim Danaprins og fjölskylda. Frá vinstri: Nikolaj prins, Marie prinsessa eiginkona Jóakims, Athena prinsessa, Jóakim Danaprins, Felix prins og Henrik prins. Mynd: Steen Brogaard - Kongehuset.dk
Jóakim Danaprins, yngri sonur Margrétar Þórhildar Danadrottningar og Hinriks heitins Danaprins, liggur enn á sjúkrahúsi í Toulouse í Frakklandi þar sem hann fór í aðgerð í fyrradag vegna blóðtappa í heila. Danska ríkisútvarpið, DR, hefur eftir talsmanni dönsku hirðarinnar að óvíst sé hversu lengi prinsinn, sem er 51 árs, verði á sjúkrahúsinu, en líðan hans sé stöðug.

Í frétt DR segir að nú sé verið að rannsaka hvaða áhrif blóðtappinn hafi haft á heilsu prinsins. Þar er haft eftir lækninum Peter Qvortrup Geisling, sem fjallar um heilbrigðismál fyrir DR, að afleiðingar blóðtappa í heila komi oft ekki fram fyrr en sólarhringum eftir aðgerð.

„Það getur verið allt frá óverulegum einkennum til helftarlömunar, minnisvandamála eða erfiðleika við tjáningu,“ segir Geisling. Hann segir að prinsins gæti beðið margra mánaða löng endurhæfing.

Jóakim Danaprins, sem heitir fullu nafni Joachim Holger Waldemar Christian og er einnig greifi af Monpezat, dvaldi á vínbúgarði fjölskyldunnar, Château de Cayx í Suður-Frakklandi þegar hann veiktist á föstudagskvöldið. Hann var fyrst fluttur á sjúkrahús í bænum Cahors sem er skammt frá búgarðinum, en síðan fluttur á háskólasjúkrahúsið í Toulouse þar sem hann undirgekkst aðgerð vegna blóðtappa í heila.