Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kjósendur Framsóknar og VG þvo og spritta oftar

26.07.2020 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
22% Íslendinga óttast að smitast af COVID-19. 27% hafa áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum sjúkdómsins á Ísland og meirihlutinn hefur breytt venjum sínum til að forðast smit. Fjölgað hefur í hópi þeirra sem telja að heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir geri of lítið til að bregðast við faraldrinum og kjósendur VG og Framsóknar þvo og spritta hendur sínar oftar en aðrir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt er um viðhorf fólks til áhrifa COVID-19.

Þeim hefur fækkað sem breyta venjum sínum til að forðast smit, en þó svara 90% því játandi að þeir þvo eða spritti hendur sínar oftar eða betur nú en fyrr. Þar fara kjósendur Framsóknarflokksins og Vinstri grænna fremstir í flokki, 97% þeirra þvo sér oftar en áður, en það á við um 80% kjósenda Miðflokksins.

Nú segjast 70% forðast faðmlög og kossa miðað við 90% í vor. Þá hefur dregið úr netverslun og færri vinna heima. Þeim sem nota grímur og hanska hefur fækkað. Þeir eru nú 20% en voru hátt í 50% þegar mest lét.

4% eru í sjálfskipaðri sóttkví sem er talsverð fækkun frá því þegar hlutfallið var hæst, en það var 22%  um miðjan apríl. Flestir þeirra eru 60 ára eða eldri. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir