Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kanye West og glíman við geðhvörfin

Mynd: EPA / EPA

Kanye West og glíman við geðhvörfin

26.07.2020 - 18:29

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Kanye West bað í dag eiginkonu sína, Kim Kardashian, afsökunar á ummælum sem hann lét falla í oflætiskasti. Formaður Geðhjálpar telur hann sækja sköpunarkraft sinn í geðhvörfin, en geðlæknir segir mikilvægt að fólk taki lyf til að halda sjúkdómnum í skefjum.

Rapparinn Kanye West er ekki aðeins einn frumlegasti og áhrifamesti tónlistarmaður samtímans, heldur er hann ekki síður frægur sem eiginmaður raunveruleikaþáttastjörnunnar Kim Kardashian.

Einkalíf hans hefur að miklu leyti farið fram fyrir opnum tjöldum. Það vakti mikla athygli þegar hann tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann hygðist bjóða sig fram til forseta í Bandaríkjunum, og hélt tilfinningaþrungna og sundurlausa ræðu. 

Síðar birtust nokkur sérkennileg tíst frá honum á Twitter, þar sem hann fullyrti meðal annars að eiginkona sín væri að reyna að láta leggja hann inn á spítala. Kim Kardashian birti síðar yfirlýsingu á Instagram þar sem hún bað fólk um að sýna manni sínum og fjölskyldunni skilning; hann væri með geðhvarfasýki, og það væri erfitt fyrir ástvini hans að hjálpa honum ef hann vildi ekki sjálfur leita sér hjálpar. Hann hefur síðan beðið hana opinberlega afsökunar.

Mynd: Kristinn Þeyr / RÚV
Ferdinand segir geðhvörf geta valdið óskaplegum hremmingum.

Getur valdið mikilli sorg

Þessi fræga fjölskylda er ekki ein um að glíma við þetta vandamál. Talið er að um eitt prósent fólks fái geðhvörf. Ferdinand Jónsson er yfirlæknir geðteymis á spítala í London, og þekkir sjúkdóminn vel.

„Þessi sjúkdómur getur valdið svo óskaplega miklum hremmingum fyrir einstaklingana og sérstaklega fjölskyldurnar og ástvini þeirra. Þetta oflæti eða manía getur eyðilagt sambönd og vinnu og valdið óskaplega mikilli sorg. Og svo hin hliðin, þunglyndið, það er oft stórhættulegt, því það er há tíðni af sjálfsvígum í þeim hópi. Þannig að mér þótti þetta fallegt að hún skyldi segja þetta. Og það er bara mannlegt og manneskjulegt,“ segir Ferdinand.

Hundrað strengja himnesk harpa

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, hefur sjálfur glímt við geðhvörf - og er aðdáandi Kanye West:

„Hann virðist vera með mjög fjörugt ímyndunarafl. Ef við erum fjögurra strengja jarðbundnir kontrabassar, þá er hann hundrað strengja himnesk harpa. Og hann er svo ofboðslega skapandi, ofboðslega kraftmikilli og klárlega í sinni kröftugu tengslahugsun, af því að maður verður var við þessa tengslahugsun sem við sem höfum fengið að reyna það að fara í oflætisástand þekkjum svo vel.“

Kanye West vill ekki taka geðlyf, því hann telur að þau dragi úr sköpunargáfu hans. Hann hefur fjallað um geðhvörfin, meðal annars á plötunni Ye.

Mynd: Kristinn Þeyr / RÚV
Héðinn Unnsteinsson segir Kanye ofboðslega skapandi og kraftmikinn.

Val að taka ekki lyf

Héðinn segir að það sé hans val að taka ekki lyf.

„Mörgum finnst það hefta þetta skapandi element sem felst í þessari óheftu tengslahugsun og ofboðslega sköpunarkrafti eldsins sem hann hefur, en svo eru náttúrulega gallarnir á því oft miklar þjáningar, og öldudalir og dimmir kjallarar og myrkur.“

Ferdinand segir hins vegar mikilvægt að fólk með geðhvarfasýki fái meðferð.

„Ef þú ert með mikið oflæti eða maníu, þá ertu ekkert að búa til stórkostlega hluti, þá ertu bara á hliðinni. Og eins þegar fólk fer í alvarlegt þunglyndi, þá er fólk alveg lamað af því ástandi,“ segir hann.

Þannig að þú myndir ráðleggja Kanye West að taka lyf?

„Endilega,“ segi Ferdinand. „Og sérstaklega að vinna með einhverjum til að finna réttu skammtana og þessa leið til þess að það verði jafnvægi milli þess að lyfin hjálpi honum sem mest, og eyðileggi sem minnst fyrir honum og hans hæfileikum og hans sköpunarkrafti.“

Tengdar fréttir

Erlent

Kanye sagður vera hættur við forsetaframboðið

Stjórnmál

Kanye West tilkynnir forsetaframboð

Menningarefni

Kim og Kanye heimilisleg í viðtali hjá Vogue