Rapparinn Kanye West er ekki aðeins einn frumlegasti og áhrifamesti tónlistarmaður samtímans, heldur er hann ekki síður frægur sem eiginmaður raunveruleikaþáttastjörnunnar Kim Kardashian.
Einkalíf hans hefur að miklu leyti farið fram fyrir opnum tjöldum. Það vakti mikla athygli þegar hann tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann hygðist bjóða sig fram til forseta í Bandaríkjunum, og hélt tilfinningaþrungna og sundurlausa ræðu.
Síðar birtust nokkur sérkennileg tíst frá honum á Twitter, þar sem hann fullyrti meðal annars að eiginkona sín væri að reyna að láta leggja hann inn á spítala. Kim Kardashian birti síðar yfirlýsingu á Instagram þar sem hún bað fólk um að sýna manni sínum og fjölskyldunni skilning; hann væri með geðhvarfasýki, og það væri erfitt fyrir ástvini hans að hjálpa honum ef hann vildi ekki sjálfur leita sér hjálpar. Hann hefur síðan beðið hana opinberlega afsökunar.