Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Innsæið er búið að vinna forvinnuna fyrir mig“

Mynd: Jórunn / Jórunn

„Innsæið er búið að vinna forvinnuna fyrir mig“

26.07.2020 - 12:19

Höfundar

„Þegar ég sest niður til að skrifa þá rennur textinn frá mér,“ segir Viktoría Blöndal, sviðshöfundur, sem nýlega sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók 1,5/10,5. Í bókinni er að finna hluta af þeim textum sem á síðustu árum hafa runnið fram í skjöl á tölvuskjá.

Ljóðabókin 1,5/10,5 er tæplega hundrað síður að lengd og skiptist í nokkra hluta. Þetta eru beinskeytt ljóð og blátt áfram og mörg hver afar persónuleg. Hér er ort um mótsagnirnar í lífi ungrar konu, um staðalmyndir, það sem virðist ætlast til, og hvernig má bregðast við því.

Mörg ljóðanna eru bersögul og Viktoría vílar ekki fyrir sér að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Tvendin karl og kona er henni hugleikinn, hver er hvort og hvort er hver.

Það

Fullkominn heiðarleiki
er of ljótur til að ég
varpi því hér fram.
Heimurinn er of lítill til þess að
ég andvarpi hreinleika á ykkur.
Þið fattið.
Þegar ég tek typpið á
mér út úr honum og hann
þurrkar framan úr sér blóðið
og ég hlæ að honum.
Djöfulsins fífl.
eins og það að leggja
sykur í holuna lagi allt.
Ég get ekki lagað hann,
þó ég reyni að sleikja
á honum píkuna.
Ég ætla ekki að laga þig,
þú ert eins og innbærinn,
gömul og snjáð.
Tengirðu?
Utanáliggjandi líffæri.
Vakning?
Eru hér eða ætlarðu
þér að vera hér?
Ég get ekki haldið á þessum
líffærum sem ég ber á
bakinu allan daginn.
þau eru ekki einu sinni
mín, þau eru þín.

Af hverju treðurðu
þessu ekki inní þig?

Viktoría segist ekki vera mikið fyrir að snurfusa texta sína, þeir einfaldlega komi. Hún hefur í fáein ár haldið úti Instagram-síðu þar sem hún birtir ljóð sín og aðra texta jafnharðan.

Mynd með færslu
 Mynd: Viktoría Blöndal
Ljóð af Instagramsíðu Viktoríu Blöndal sem einnig birtist í ljóðabókinni 1,5/105

Viktoría Blöndal er rúmlega þrítug. Hún útskrifaðist af sviðshöfundabraut LHÍ fyrir fimm árum og lokaverkefni hennar fjallaði um grimmdina, núninginn og tvíveruna í lífi og listum út frá listamönnunum Ástu Sigurðardóttur og Antonin Artauds, sem bæði eru áhrifavaldar í hennar eigin skrifum, einkum Ásta.

Síðan Viktoría útskrifaðist hefur hún eignast tvö börn til viðbótar við það eina sem hún átti fyrir og einnig starfað við margvíslega framkvæmdastjórn listviðburða, sýningarstjórn og leikstýrt nokkrum verkefnum, skrifað handrit og sótt sér leiðsögn í skriftum víða.

Árið 2017 hélt hún úti Facebook-síðu undir titlinum Vikoría Blöndal skrifaði þar fáeina texta, ljóð, brot úr leikritum, smásögum og jafnvel skáldsögu. Undanfarna mánuði hefur Viktoría svo átt afdrep í Gröndalshúsi, það er að segja sérherbergi sem Virginia Woolf gerði á sínum tíma í samnefndri bók að forsendu þess að konur skrifuðu.

Útgáfu ljóðabókarinnar 1,5/10,5 var fagnað 10. júlí og auðvitað í Gröndalshúsi. Það var Þorvaldur Sigurbjörn Helgason sem kynnti Viktoríu og bók hennar sem prent- og plakata-kollektífið Signatura Books gefur út.

Mynd með færslu
 Mynd: Jórunn

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Framtíð ljóðsins á netinu

Bókmenntir

Orðið ljóðskáld er svo gildishlaðið ...

Bókmenntir

Ljóðskáld nenna ljóðrænum verkefnum