Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Grunur um fyrsta kórónaveirusmitið í Norður Kóreu

26.07.2020 - 04:30
War veterans head to a hotel to attend a national conference of war veterans on the occasion of the 67th anniversary of the end of the Korean War, which the country celebrates as the day of "victory in the fatherland liberation war" in Pyongyang, North Korea Saturday, July 25, 2020. (AP Photo/Jon Chol Jin)
Norður-kóreumenn fögnuðu því í gær að 67 ár voru liðin frá „dýrðlegum sigri í frelisstríði föðurlandsins,“ eða lokum Kóreustríðsins. Mynd: AP
Ríkisfréttastofa Norður Kóreu skýrði frá því í gærkvöld að fyrsta COVID-19-tilfellið hefði að öllum líkindum greinst þar í landi. Samkvæmt fréttinni er hinn smitaði karlmaður sem flýði land fyrir þremur árum en sneri aftur til Norður Kóreu í síðustu viku. Maðurinn var í landamæraborginni Kaesong þegar hann greindist með kórónaveiruna og hefur borgin verið einangruð og útgöngubann sett á íbúana.

Kim Jong-un, einræðisherra Norður Kóreu, blés til neyðarfundar með háttsettum embættismönnum, þar sem lagt var á ráðin um viðbrögð við þessum válegu tíðindum.

Í frétt ríkissjónvarpsins segir að Kim hafi fyrirskipað að gripið yrði til „hámarks öryggisráðstafana“ til að hefta útbreiðslu veirunnar. Einnig mælti hann fyrir um rannsókn á því, hvernig maðurinn komst óséður yfir vel varin landamæri Kóreuríkjanna tveggja og varaði við því, að þeir sem bæru ábyrgð á því ættu „harða refsingu“ yfir höfði sér. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV