Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

GPS-kerfið kann að vera ótryggt

26.07.2020 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: www.nasa.gov
Mörg ríki vinna að því að koma sér upp annarri staðsetningartækni en GPS-kerfinu. Verkfræðilektor segir að ástæða kunni að vera til að hafa áhyggjur af öryggi GPS-kerfisins, sem er í eigu Bandaríkjahers. Gamla Loran-kerfið hefur gengið í endurnýjun lífdaga.

 

GPS-tæknin fylgir okkur við hvert fótmál. Við notum hana þegar við fljúgum, siglum og keyrum, við landmælingar, í iðnaði og frístundum. Fæstir leiða hugann að því að hún er hernaðartæki í eigu Bandaríkjahers, sem opnaði hana fyrst fyrir almennri notkun á níunda áratug síðustu aldar. GPS-tæknin notar hnit frá gervitungli í 20.000 kílómetra hæð yfir jörðu, og því hafa skilyrði í náttúrunni lítil áhrif á hana.

„En það er mjög auðvelt að trufla hana. Og illviljað fólk getur á auðveldan hátt truflað móttöku þessara merkja,“ segir Sæmundur E. Þorsteinsson, lektor í verkfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur um áhættustjórnun og öryggismál fjarskipta. Hann segir líka auðvelt að senda villumerki með rangri staðsetningu, til dæmis í hernaði. 

Bandaríkjaforseti gæti slökkt á GPS-kerfinu

„GPS-kerfið er í eigu varnarmálaráðuneytisins bandaríska. Þau hafa fullvissað almenning um að kerfið sé til reiðu á öllum stundum. En vissulega geta þeir slökkt á þessu ef það dytti inn í hausinn á mjög sérvitrum forseta að láta gera slíkt, þá gæti hann væntanlega gert það,“ segir Sæmundur. 

Því séu mörg ríki farin að huga að öðrum kerfum og staðsetningartækni. Bæði Rússar og Kínverjar starfrækja sín eigin gervitunglakerfi, og Evrópusambandið er að hrinda staðsetningarkerfinu Galileo af stokkunum.

„Galileo-kerfið er fyrst og fremst byggt til borgaralegrar notkunar. Það hefur kannski ívið meiri nákvæmni og er náttúrulega undir stjórn Evrópusambandsins. Þá eru það ekki ein stjórnvöld sem ráða því algerlega heldur mörg,“ segir Sæmundur.

Gömul tækni í nýjum búningi

Margir eru líka farnir að horfa aftur til gömlu lóran-tækninnar. Hún er byggð á útvarpsbylgjum og var notuð frá 6. áratugnum og þar til GPS-tæknin tók yfir. Lóran-merkin eru send á mjög löngum bylgjum frá sendum á jörðu niðri.

„Það er þá ný útgáfa af Lórankerfinu sem heitir eLoran, sem stendur fyrir Enhanced Loran, menn eru alvarlega að skoða það í mörgum löndum að hafa það sem kerfi til vara, því það lýtur svolítið öðrum lögmálum að trufla það, það er miklu erfiðara en að trufla gervitunglakerfi," segir Sæmundur. Þó sé sennilega öruggast að hafa aðgang að sem flestum staðsetningarkerfum.

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir