Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Goðsögnin Olivia de Havilland látin, 104 ára að aldri

FILE - In this file photo dated Wednesday, Sept. 15, 2004, Actress Olivia de Havilland, who played the doomed Southern belle Melanie in "Gone With the Wind," poses for a photograph, in Los Angeles, USA.  Olivia de Havilland, Oscar-winning actress has died, aged 104 in Paris,  publicist says Sunday July 26, 2020. (AP Photo/Kevork Djansezian, FILE)
 Mynd: AP

Goðsögnin Olivia de Havilland látin, 104 ára að aldri

26.07.2020 - 23:27

Höfundar

Stórleikkonan Olivia de Havilland er látin, 104 ára að aldri. Í tilkynningu frá umboðsmanni hennar segir að hún hafi fengið hægt andlát á heimili sínu í París, þar sem hún hefur búið síðan snemma á sjötta áratug síðustu aldar. de Havilland lék í 49 kvikmyndum á glæstum ferli sem spannaði 45 ár, frá 1935 til 1980. Hún vann tvenn Óskarsverðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki, annars vegar fyrir myndina To Each his Own árið 1946 og hins vegar fyrir Erfingjann, The Heiress, árið 1949.

Þekktust er hún þó fyrir leik sinn í stórmyndinni Á hverfanda hveli, eða Gone with the Wind, þar sem hún fór með hlutverk Melanie Hamilton Wilkes. Hún var tilnefnd til Óskarsins fyrir það hlutverk, en fékk ekki.

Drottning og goðsögn í Hollywood 

„Hún var drottning í Hollywood og verður minnst sem slíkrar í kvikmyndasögunni,“ sagði Thierry Fremaux, stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Þau eru ekki mörg sem verðskulda að vera kölluð goðsagnir, en Olivia de Havilland var vissulega ein af þeim,“ skrifar Scott Feinberg, blaðamaður og pistlahöfundur í Hollywood. Og de Havilland er minnst fyrir fleira en listileg tilþrif á hvíta tjaldinu.

Tók slaginn fyrir sig og aðra leikara

Kollegar hennar í leikarastétt minnast hennar ekki síður fyrir að hafa stórbætt réttarstöðu þeirra gagnvart stóru kvikmyndaverunum í borg draumanna. de Havilland var samningsbundin Warner Bros. kvikmyndaverinu, sem framlengdi samninginn við hana trekk í trekk, þrátt fyrir að hún hafnaði hverju handritinu sem fyrirtækið sendi henni af öðru.

Loks greip hún til þess ráðs að fara í mál við fyrirtækið til að freista þess að losna undan samningnum og hafði betur eftir harðan slag. Í tímamótaúrskurði sem kveðinn var upp í málinu árið 1945 var réttur leikara til að ráða eigin málum aukinn til muna og réttindi þeirra gagnvart vinnuveitendum styrkt til frambúðar. Leiddi dómurinn til viðauka við atvinnulöggjöfina, sem enn er í fullu gildi og jafnan er kölluð de Havilland-reglan.

Leikarinn Jared Leto minntist de Havilland á Twitter í kvöld og sagði þessa reglu hafa gert honum kleift að losa sig undan afar óhagstæðum samningi. Sagðist hann hafa fengið tækifæri til að þakka henni í eigin persónu í París fyrir nokkru. „Það var stórkostlegt að hitta hana - hún er goðsögn!“ skrifaði Leto um de Havilland.  

Tengdar fréttir

Mannlíf

Joan Fontaine látin