Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gætum þurft að grípa til harðari aðgerða

26.07.2020 - 19:28
Mynd: Fréttir / Fréttir
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur í sóttvörnum hjá Embætti landlæknis , segir alltaf áhyggjuefni þegar upp komi hópsmit. Það bendi til þess að smitandi einstaklingur sé í samfélaginu. Verið sé að skoða hverjir þurfi að fara í sóttkví út frá þeim sem greinst hafa undanfarna daga. Haldi innanlandssmitum áfram að fjölga gæti þurft að grípa til harðari aðgerða.

„Við vonum að það verði ekki frekari tilfelli,“ sagði Kamilla í kvöldfréttum Sjónvarps.

Spurð hvort herða þyrfti reglurnar, stíga til baka og taka upp þá lifnaðarhætti sem margir tileinkuðu sér í vor svaraði Kamilla að það þyrfti að skoða það. „Það þarf að fara vel yfir þær reglur sem eru í gildi núna og sjá hvort þessar landamæraaðgerðir, sem við erum í núna, eru ennþá fullægjandi eða hvort það er hægt að stoppa í einhver göt. Svo þarf að skoða í framhaldinu ef það fara að koma fleiri smit, sem ekki eru rekjanleg til ferðalaga einstaklingsins sjálfs eða tengdra aðila; þá gæti þurft að grípa til harðari aðgerða aftur í samfélaginu.“

Villa í skráningarblaði sem fólk fyllir út þegar það kemur til landsins varð til þess að einstaklingur, búsettur hér á landi, var ekki kallaður aftur í sýnatöku. Hann greindit síðar með smit.

Kamilla segir að hugsanlegt sé að fleiri Íslendingar hafi látið hjá líða að fara í seinni sýnatöku vegna kerfisvillunnar. Skoða þurfi leiðir til að hindra að þetta gerist aftur.

Spurð hvort þessi smit gefi til kynna að ný bylgja faraldursins sé farin af stað segir Kamilla að svo sé ekki enn sem komið er. „En við þurfum að vera á tánum.“