Elti leikkonu úr Law and Order alla leið til New York

Mynd: Birna Hrönn Björnsdóttir / Aðsend

Elti leikkonu úr Law and Order alla leið til New York

26.07.2020 - 14:30

Höfundar

„Ég var skotin í henni eins og maður fær svona æskuskot,“ segir Birna Hrönn Björnsdóttir um Marisku Hargitay, aðalleikkonu þáttanna Law and Order: Special Victims Unit. Hún var svo bergnumin af leikkonunni að hún mætti á tökustað þáttanna og beið eftir henni klukkutímum saman, bara til að geta sagt hæ.

Þegar Birna Hrönn Björnsdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Pink Iceland, horfði líkt og margir Íslendingar á spennuþættina Law and Order: Special Victims Unit upp úr aldamótum þá kolféll hún fyrir aðalleikkonu þáttanna Marisku Hargitay. Birna segir söguna af fundum hennar og leikkonunnar í þættinum Ástarsögur á Rás 1. 

„Það var bara ég að fela að ég væri lesbía“

Þegar Birna var sjálf unglingur, á þeim aldri sem margir byrja að þróa með sér ofsafengin ástarskot, þá upplifði hún það ekki eins og jafnaldrar sínir því hún stóð hún í ströngu við að bæla sínar eigin kenndir. Hún þóttist hafa áhuga á drengjahljómsveitum og ungum töffaralegum hjartaknúsurum úr bíómyndum en hafði það alls ekki. „Ég var að klippa úr poppblöðum og hengja myndir á vegg af Backstreet boys og Jared Leto. En það var ekkert á bak við það, það var bara ég að fela að ég væri lesbía.“

Hún segir að stundum sé talað um að þegar fólk komi út úr skápnum þá fari það í gegnum síðbúið gelgjuskeið. „Við eyðum unglingsárunum í að bæla niður þessar unglingahvatir, þessi skot og svona. Ég held það hafi verið eitt af því sem dró mig að henni,“ segir Birna um leikkonuna. „Og það var eitthvað við hana. Mér fannst hún góð leikkona, falleg og hlýleg og ég var bara skotin í henni sko.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Birna gleymir því aldrei þegar þær Mariska loksins hittust

Einn í tökuliðinu átti vin sem þekkti Marisku

Það hljóp á snærið hjá leikkonunni þegar hún var stödd í New York fyrir nokkrum árum. Einn besti vinur hennar, Erlingur Óttar Thoroddsen, var að skjóta kvikmynd þar í borg og fékk Birnu og vin þeirra, Gunnar Helga Guðjónsson, til aðstoðar við tökurnar. „Við vorum að vinna í 30 manna tökuliði og verjum dágóðum tíma með ókunnugu fólki. Þetta er náttúrulega innilegt andrúmsloft þegar maður eyðir svona löngum tíma saman á dag svo það var talað um allt og ekki neitt.“

Það berst í tal einn daginn að Birna sé mikill aðdáandi Marisku. Ein konan í tökuliðinu segir vin sinn kannast við leikkonuna því hann var í tökuliði þáttanna. Birna gat ekki hætt að hugsa um þá staðreynd og spyr nýju vinkonu sína reglulega hvernig vini hennar líki að vinna með leikkonunni og hvort Birna geti fengið að hitta hana. „Hún segir mér að hætta þessu, hún viti ekkert hvort hún geti látið það gerast,“ segir Birna. Þegar tökum á kvikmyndinni er loksins lokið skálar hópurinn og Birna reynir í síðasta sinn að sannfæra konuna um að reyna að koma fundinum í kring. „Hún var búin að fá sér nokkur glös og sagði að hún myndi bara græja þetta.“

„Hér er heimilisfangið, gangi þér vel“

Nokkrum dögum síðar sendir Birna konunni skilaboð og spyr hvort eitthvað sé að gerast í málinu. Konan svarar ekki og Birna ákveður að gefast upp. Einn morguninn vaknar hún síðan við langþráð skilaboð. „Ég horfi á símann og öskra uppyfir mig. Gunnar Helgi vaknar við öskrin og ég segi: Ég verð að fara í sturtu og ég verð að gera mig fína og fara niður í bæ.“ Konan hafði þá skrifað til Birnu að vinur hennar, leikarar og tökulið Law and Order væru stödd á hóteli á Times Square. „Ég veit ekki hvenær þau byrja eða hvenær þau hætta en þetta er nafnið á hótelinu, gangi þér vel,“ stendur í skilaboðunum og Birna klæðir sig í snatri. 

„Birna frá Íslandi er komin“

Hún spyr í móttökunni hvar tökur fari fram og tekur lyftuna upp á 45. hæð þar sem hópurinn er saman kominn. Birna kemur sér fyrir og bíður þar til kona í starfsliðinu kemur til hennar og spyr þessa óboðnu konu hvort það megi aðstoða: „Ég segist vera að leita að Jason og bað konuna að segja honum að Birna frá Íslandi væri komin.“

Þegar vinurinn loks kemur horfir hann forviða á Birnu og spyr hvernig í ósköpunum hún komst alla leið á settið enda átti að vera ströng öryggisgæsla. Birna útskýrir að hún hafi nú bara tekið lyftuna og biður um að fá að hitta Marisku. „Jú, ég veit það ekki. Sestu hérna,“ segir vinurinn og Birna tyllir sér. Við hlið hennar situr aukaleikari í þáttunum og þau byrja að spjalla saman. „Ég segir við hann: Ég er aðdáandi, en þú?“ segir Birna. „Ég spilaði þetta eins og þetta væri eðlilegasti hlutur í heimi.“

„Hjólhýsið er merkt, flýttu þér“

Tíminn líður og Birna bíður. Leikararnir koma reglulega fram þegar hlé er gert á tökum, þeir fá sér snakk og Birna lítur í kringum sig og leitar Marisku sem er hvergi sjáanleg. Loks kemur vinurinn og segir henni að hann sé því miður á förum. Birna biður hann að koma sér í hendurnar á öðrum starfsmanni enda hvarflaði ekki að henni að fara neitt strax. Undrandi samþykkir vinurinn það og nær í annan starfsmann. „Hann kemur með annan vin sinn og segir: Þetta er konan frá Íslandi sem vill endilega hitta Marisku.“ Svo fer hann.

Loks eftir tveggja tíma bið kemur nýi vinurinn hlaupandi til Birnu. „Hann segir: Fljót. Þetta eru óvenjulegar aðstæður í dag, það eru blaðamenn með henni svo hún mun ekkert stoppa. Hún fer beinustu leið í bíl með þeim svo þú verður að taka sénsinn og fara niður og finna hjólhýsið hennar. Það er hvítt og það er merkt. Flýttu þér.“

„Svo lít ég til hægri og missi andlitið“

Birna æðir af stað og fer með lyftunni niður á Times Square. Þar finnur hún um fjörutíu hjólhýsi, sum merkt og sum ekki. Hjólhýsi Marisku finnur hún hins vegar ekki og þá fer örvænting að láta á sér kræla. „Ég finn bugunina hellast yfir mig því ég var búin að eyða hálfum degi í þetta en hugsa svo jæja, ég reyndi. Þetta var skemmtilegt.“ Vondauf heldur Birna aftur í átt að hótelinu þar sem hún sér inn um gluggann tökuliðið horfa á sig með vorkunnaraugum enda ljóst að Birnu tókst ekki ætlunarverk sitt. Birna sættir sig við örlögin og það byrjar að rigna. „Ég fer undir skýli til að skýla mér fyrir rigningunni. Svo lít ég til hægri og missi andlitið.“

Verður alltaf aðdáandi

Engin önnur en Mariska Hargitay stóð þar í buxnadragtinni sem hún klæðist í þáttunum og Birna þekkti mætavel - en Birna gat sig varla hreyft af geðshræringu. „Ég horfi á líkamann og hendurnar og hugsa nú verður þú að hreyfa þig. Nú verður þú að fara í átt til hennar.“ Birna gerir það og manar sig upp í að pikka í öxlina á leikkonunni. „Hún lítur á mig og ég get varla sagt neitt. En ég heilsa bara og segi halló,“ rifjar Birna upp. „Ég segist vera frá Íslandi og mikill aðdáandi. Hún segir: Mikið er gaman að hitta þig.“ Samtalið náði ekki mikið lengra því bíll Marisku er mættur og það er flautað á hana. Mariska snýr sér að Birnu og segir: „Ég verð að fara en það var rosalega gaman að hitta þig.“

Birna kveður átrúnaðargoðið, horfir á bílinn keyra í burtu og brotnar svo saman. „Ég hringi kjökrandi í Erling og Gunna og þeir héldu að þetta hefði ekki tekist. En ég var grátandi af spennufalli og gleði. Ég segi: Jú, ég hitti hana. þið verðið að hitta mig núna. Svo skáluðum við í sódavatn og tekíla,“ segir Birna. Hún sér ekki eftir neinu þó hún viðurkenni að hún myndi líklega ekki endurtaka leikinn. „Þetta er svona einu sinni á ævinni, að fórna svona tíma og orku í að láta svona gerast. En ég verð alltaf aðdáandi þessarar konu.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Birnu Hrönn Björnsdóttur í þættinum Ástarsögur á Rás 1.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Okkur var boðið kampavín, svo fóru þau úr herberginu“

Menningarefni

„Þá fyrst fattaði ég að Ísold væri fyrirsæta“

Menningarefni

Það eina sem fer í gegnum hugann er „ekki deyja“