Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Átök milli lögreglu og mótmælenda í Seattle

26.07.2020 - 06:39
Police arrest a person, Saturday, July 25, 2020, during a Black Lives Matter protest near Seattle Central Community College in Seattle. A large group of protesters were marching Saturday in Seattle in support of Black Lives Matter and against police brutality and racial injustice. (AP Photo/Ted S. Warren)
 Mynd: AP
Borgaryfirvöld í Seattle í Washingtonríki hafa lýst yfir uppreisnarástandi í kjölfar fjölmennra mótmæla í miðborginni. Lögregla greip í gær til til blossasprengja og piparúða til að freista þess að ryðja stórt svæði sem mótmælendur lögðu undir sig og teygði sig yfir margar húsaraðir í Capitol Hill-hverfinu í borginni.

Lögreglan tilkynnti á Twitter að minnst ellefu mótmælendur hefðu verið handteknir og að rannsókn stæði yfir á skemmdarverki sem unnið var á lögreglustöð í borginni í gær, mögulega með einhvers konar sprengju. Borgar- og lögregluyfirvöld segja að mótmælendur hafi grýtt lögreglu með grjóti, flöskum, hvellsprengjum og öðru lauslegu og var einn lögreglumaður fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að meiðslum hans.

Friðsamleg mótmæli til að sýna mótmælendum í Portland samstöðu

Mótmælin í Seattle voru þó friðsamleg lengi framan af. Blásið var til þeirra til að sýna mótmælendum í Portland í Oregon samstöðu, en þar í borg hefur ítrekað hefur komið til harðra átaka milli mótmælenda og þungvopnaðra sveita alríkislögreglumanna.

Þar, líkt og í fleiri borgum Bandaríkjanna, safnast fólk saman undir merkjum Black Lives Matter, minnist Georges Floyds, sem var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis 25. maí, mótmælir kerfisbundnum rasisma í bandarísku samfélagi og krefst úrbóta.