
Trump vill lækka lyfjaverð með tilskipunum
Tilskipanirnar heimila lyfjaverslunum meðal annars að bjóða viðskiptavinum sínum umtalsverðan afslátt á slíkum læknisdómum og draga mjög úr hömlum á innflutningi ódýrari samheitalyfja frá öðrum löndum.
Lyfjaiðnaðurinn mótfallinn „sósíalískum“ verðlagsreglum
Forsetinn mun funda með fulltrúum bandaríska lyfjaiðnaðarins á þriðjudag. Þar á bæ ríkir takmörkuð ánægja með breytinguna, og er forsetinn sakaður um að grafa undan bandarískum lyfjaiðnaði og getu hans til að bregðast við kórónaveirufaraldrinum og öðrum framtíðarfarsóttum.
„Þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að fylgja róttækri og hættulegri verðlagsstefnu sem byggð er á verðlagningu [lyfja] í ríkjum sem [Donald Trump] hefur skilgreint sem sósíalistaríki, sem mun skaða sjúklinga í dag og til framtíðar,“ segir í yfirlýsingu samtaka bandarískra lyfjaframleiðenda.
Efast um árangur tilskipananna
Í frétt BBC segir að sérfræðingar vestra efist um að tilskipanirnar muni hafa nokkur áhrif á lyfjaverð fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember. Þeir benda á að forsetinn og ríkisstjórn hans hafi takmarkaðar valdheimildir til að innleiða regluverk um lyfjaverð, enda öðlist forsetatilskipanir ekki sjálfkrafa lagalegt gildi, auk þess sem hægt er að véfengja lögmæti þeirra og gildissvið fyrir dómi.
Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, frá 2019, verja bandarísk stjórnvöld að meðaltali um það bil tvöfalt meiru fjármagni til lyfjakaupa en önnur ríki OECD, miðað við höfðatölu.