Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrefalt fleiri eldar í stærsta hitabeltisvotlendi heims

20151026 The jaguar male is searching for his female and will soon cross the river as the female have done before him. He enjoys his territory in northern Pantanal..Photo by: Jan Fleschmann
 Mynd: WIkipedia - Wikipedia
Gróðureldum í Pantanal, víðfeðmasta hitabeltisvotlendi heims, hefur fjölgað mjög síðustu ár og það sem af er þessu ári hafa þeir verið þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Geimvísindastofnun Brasilíu, Inpe, greindi frá því á föstudag að þar hefðu logað 3.682 gróðureldar frá 1. janúar til 23. júlí á þessu ári og hafa aldrei verið fleiri síðan Inpe tók að fylgjast með útbreiðslu gróðurelda með hjálp gervihnatta.

Tólfföldun frá 2018 - glæpamenn stórtækir brennuvargar

Eldarnir voru rétt rúmlega 1.200 á sama tíma í fyrra og ef litið er til sama tímabils á árinu 2018 er aukningin enn meiri, því þá loguðu innan við 300 gróðureldar á svæðinu. Brasilíska dagblaðið El Globo hefur eftir félögum í náttúruverndarsamtökum sem kallast Pantanal-skoðunarstöðin, að meginskýringin á þessari miklu aukningu sé tvíþætt; hlýnandi loftslag og glæpastarfsemi.

Gróðureldar hafa alltaf verið algengir á þurrkatímabilum í Brasilíu, en síðustu ár hefur það færst mjög í vöxt að menn leggi vísvitandi eld að skógi og öðru gróðurlendi til að rýma fyrir akuryrkju. Það gera þeir líka þar sem slíkt er bannað, sem það sannarlega er víðast hvar í Pantanal-votlendinu.

Einstakt náttúruundur

Pantanal er einstakt náttúruundur sem teygir sig yfir hátt í 200.000 ferkílómetra svæði á mörkum Brasilíu, Bólivíu og Paragvæ. Gróður er þar fádæma mikill og fjölbreytilegur og þúsundir dýra, stórra og smárra, eiga þar heimkynni sín, þar á meðal stórkötturinn jagúar, risamauraætan, öskurapar og krókódílar, flóðsvín og tapírar, að ógleymdum hundruðum tegunda fugla og fiska. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV