Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þarna sluppu menn með skrekkinn“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reiðhjólafestingar á bíla falla undir reglugerð um frágang á farmi og refsivert er að ganga ekki tryggilega frá reiðhjólum sem fest eru á bíla. Þetta segir Guðbrandur Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann segist sleginn eftir að hafa séð myndband á ruv.is sem sýnir þrjú reiðhjól losna af þaki bíls á ferð, litlu hefði mátt muna að slys hefði orðið.

Umrætt myndband var tekið á upptökuvél í mælaborði bíls sem mætti bílnum með reiðhjólin í þann mund sem hjólin losnuðu og komu þau fljúgandi á móti honum. Ökumaðurinn, Ómar Örn Sæmundsson, segir í samtali við Fréttastofu að engu hefði mátt muna að stórslys yrði. Hann hafi haft sekúndubrot til að bregðast við og til allrar hamingju hafi ekki orðið nein slys á fólki.

Guðbrandur segist ekki hafa heyrt af slíku atviki áður. „Hvorki af hjólagrindum á toppi né á beisli aftan á ökutækjum. En getur svo sem gerst með þennan búnað sem og annan ef honum er ekki viðhaldið eða ekki notaður rétt,“ segir Guðbrandur.

Reiðhjólafestingar á bíla falla undir reglugerð um frágang á farmi og þar segir að farm ökutækis skuli skorða tryggilega. Í umferðarlögum er heimild fyrir allt að 100 þúsund króna sekt sé ekki farið eftir þessu. Guðbrandur segir að þeir sem kjósi að aka um með farm, þurfi að taka mið af aðstæðum. 

„Þar sem er vindur getur farmur eins og reiðhjól ofan á toppi tekið á sig talsverðan vind. Ég horfði á þetta myndband og það er sláandi að sjá þetta og við prísum okkur væntanlega öll sæl yfir að þarna varð ekki slys á fólki. Þannig að þarna sluppu menn með skrekkinn og vonandi verður lærdómur fyrir alla aðra sem eru í farmflutningum hvort sem það eru reiðhjól eða annað,“ segir Guðbrandur.