Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óstjórn og flokkadrættir á Suðurnesjum

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Óstjórn og flokkadrættir hafa viðgengist hjá lögreglunni á Suðurnesjum um langt skeið. Starfsmenn kvarta undan kynferðislegri áreitni, óeðlilegum ráðningum og hótunum um brottrekstur.

Embætti lögreglunnar á Suðurnesjum logar í illdeilum, og eru mál þess komin inn á borð dómsmálaráðuneytisins og ríkisendurskoðunar.

Bæði hefur verið kvartað undan framgöngu lögreglustjórans, Ólafs Helga Kjartanssonar, en líka undan einelti af hendi Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirmanns lögfræðisviðs, og Helga Kristjánssonar, mannauðsstjóra embættisins.

Starfsmenn embættisins vilja ekki koma fram undir nafni, en eftir því sem fréttastofa kemst næst er engum einum um að kenna hvernig komið er fyrir embættinu. Ólafi Helga er lýst sem afskiptalausum stjórnanda sem taki ekki á vandamálum. Hann eigi til að tala niður til samstarfskvenna sinna, skipti um föt fyrir opnum dyrum og hafi átt samtal við samstarfskonu sína ber að ofan á skrifstofu sinni.

Þá kvartaði starfsmaður undan því við trúnaðarmann að Ólafur Helgi hefði notað tölvubúnað embættisins til að semja og senda klúran texta, sem fannst í miðlægum prentara á lögreglustöðinni. Ólafur Helgi brást hinn versti við þegar hann frétti af þessum kvörtunum, kallaði starfsmenn á sinn fund og hótaði þeim brottrekstri.

Óánægjan beinist þó ekki aðeins gegn honum. Alda Hrönn og Helgi eru sögð hafa með markvissum hætti reynt að grafa undan Ólafi Helga. Alda Hrönn er sögð beita samstarfsfólk sitt hörku og ógnunum, og fólk sem leyfi sér að andmæla henni hafi misst vinnuna. Starfsfólk kvartar yfir ófaglegum ráðningum og stöðuveitingum, lögreglumaður hafi til að mynda fengið stöðuhækkun þrátt fyrir kvartanir samstarfskvenna um að hann áreitti þær kynferðislega.

Helgi, mannauðsstjórinn, hafi ekki tekið á slíkum kvörtunum, og konur hafi þurft að leita til karlkyns samstarfsmanna sinna til að fá þá til að ræða við gerandann. Ekki bætir úr skák að mikil fjölskyldutengsl eru meðal starfsmanna. Alda Hrönn og Helgi hafa bæði vísað á bug að þau hafi lagt samstarfsfólk sitt í einelti eða reynt að grafa undan lögreglustjóranum. Ólafur Helgi vill ekki tjá sig um málið.