Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nýtt frá Warmland, Elín Ey, Ouse ft Auður og Hreimi

Mynd: RÚV / RÚV

Nýtt frá Warmland, Elín Ey, Ouse ft Auður og Hreimi

25.07.2020 - 14:00

Höfundar

Blússandi sumarútgáfa í gangi sem þýðir að Undiraldan að þessu sinni er samsett af geggjuðum og glimrandi ferskum stuðslögurum annars vegar og hins vegar rólegum og rómantískum vangalögum sem fá jafnvel hörðustu sambandsafneitunarsinna í eldheitan skemmtistaðasleik.

Warmland - Family

Dúettinn Warmland ætlar greinilega að hamra járnið meðan það er heitt með glænýju lagi sem heitir Family, en flestir muna eflaust eftir að það er frekar stutt síðan að slagari þeirra Superstar Minimal laumaði sér á topp vinsældarlista Rásar 2.


Krassasig - Þú ert eins og hún

Kristinn Arnar Sigurðsson eða Krassasig eins og hann kallar sig þegar hann fæst við tónlist gaf út angurværa stuðlagið - Þú ert eins og hún, síðastliðin föstudag en listamaðurinn hyggur á umfangsmikið tónleikahald á næstunni.


Elín Ey - Ljósið

Elín Eyþórsdóttir er heldur betur með uppreimaða stuðstrigaskóna í laginu Ljósið sem er poppað danslag með nútíma diskóhljómi sem ætti að koma öllum út á gólfið.


Jói Pé x Króli ft Hipsumhaps - Ósagt ósatt

Stuðslagarinn On er á mikilli siglingu þessa dagana hér á Rás 2, en það er bara eitt af mörgum fínum lögum af plötu þeirra Í miðjum kjarnorkuvetri. Í Ósagt ósatt kemur sveitin Hipsumhaps í heimsókn með blúsaða ástarsögu að hætti hússins.


Ouse ft Auður - Ég verð alltaf hér

Skærasta stjarna Sauðárkróks og þótt víðar væri leitað er svefnherbergisraularinn Ouse eða Ásgeir Bragi Ægisson sem hefur slegið það rosalega í gegn á Spotify að eftir hefur verið tekið. Nú er stefnan sett á íslenskan markað með plötu á ylhýra og fyrsti söngull er Ég verð alltaf hér ásamt Auði.


Hreimur - Lítið hús

Það þekkja flestir næst frægasta íbúa Norðlingaholts Hreim úr Landi og sonum og fullt af öðrum verkefnum en nú hefur hann sent frá sér angurværu ballöðunu Lítið hús sem verður að finna á plötu hans Miðnætursól.


Marproject - Shangri La

Tónlistarmaðurinn Logi Már Jósafatsson hefur sent úr hlaði nýtt verkefni sitt sem hann kýs að kalla Marproject með sínu fyrsta lagi sem heitir Shangri-La.


Luigi - Breyttir tímar

Knattspyrnumaðurinn Logi Tómasson, spilar með Víking í efstu deild en er greinilega annað líka til lista lagt því í enda júní gaf hann út plötu sem ber heitið Breyttir Tímar.


Ratio ft Lil Binni og Birnir - Ekki neitt

Hljómsveitin og pródúserateymið Ratio dælir út lögum eins og engin sér morgundagurinn og í sumarlega popplaginu Ekki neitt fá þeir rapparana Lil Binni og Birni tíl liðs við sig.