Karlmaður skotinn til bana í Örebro

25.07.2020 - 07:29
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Karlmaður á fimmtugsaldri var skotinn til bana í sænsku borginni Örebro síðla kvölds í gær. Lögregla var kölluð til þegar vegfarendur komu að manninum liggjandi í blóði sínu. Var fólk ekki visst um hvort hann væri lífs eða liðinn en þótti einsýnt að engan tíma mætti missa og gripu viðstaddir því til þess ráðs að aka honum í eigin bíl á háskólasjúkrahús borgarinnar.

Lögregla hefur yfirheyrt þau sem óku honum á spítalann og verður bíll þeirra rannsakaður gaumgæfilega. Lögreglumenn stóðu vörð við bráðadeild spítalans fram eftir nóttu og vitna er leitað. Samkvæmt sænska ríkissjónvarpinu, SVT, vildi lögregla ekki veita neinar frekari upplýsingar um málið. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi