Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hársbreidd frá slysi þegar hjól losnuðu af þaki bíls

25.07.2020 - 13:47
Mynd: Ómar Örn Sæmundsson / Skjáskot
„Þetta gerðist á augnabliki. Ég hafði sekúndubrot til að bregðast við og til allrar hamingju urðu engin slys á fólki.“ Þetta segir Ómar Örn Sæmundsson sem í gær var á ferð á Vesturlandsvegi um Kollafjörð ásamt fjölskyldu sinni, þegar þrjú reiðhjól og festingar, sem voru á þaki bíls sem ók á móti honum, losnuðu og komu fljúgandi í átt að bíl Ómars.

Ómar, sem ekur stórum jeppa, var á leið úr Borgarfirði til Reykjavíkur þegar atvikið gerðist. Upptökuvél er í mælaborði bíls hans og fylgir upptakan þessari frétt.

Þar sést þegar hjólin og festingarnar sem halda þeim á þaki bílsins losna og þeytast yfir á vegarhelminginn sem Ómar ók og síðan út í kant.

Hefði getað orsakað stórslys

Hann segist hafa verið á um 85 kílómetra hraða á klukkustund og segist vart geta hugsað til þess hvað hefði getað gerst hefði hann ekið hraðar. „Eða ef ég hefði verið á minni bíl. Eða verið nokkrum sekúndum fyrr á ferðinni. Mér tókst að sveigja frá, það sést á myndskeiðinu að það líða um 2 sekúndur frá því að festingarnar og hjólin losna af þaki bílsins og þangað til ég er kominn framhjá þeim. Ég sveigði til vinstri, ók aðeins yfir eitt þeirra, fór síðan út í kant, sneri við og ræddi við bílstjórann. Hann var eðlilega í sjokki og algjörlega miður sín. Enda hefði þetta getað orsakað stórslys,“ segir Ómar.

Hann segir að bílstjórinn hafi sagt að hann hefði talið sig hafa gengið eins tryggilega frá hjólunum og mögulegt væri. „Hann sótti síðan hjólin og festingarnar. Við tilkynntum þetta ekki til lögreglu, það urðu engin slys á fólki og litlar skemmdir, bíllinn minn rispaðist lítillega.“

Vonar að atvikið veki fólk til umhugsunar

Að sögn Ómars var talsverður vindur á svæðinu þegar þetta gerðist. „Hugsanlega tók vind í hjólin, það er erfitt að segja hvað gerðist. Ég get ekkert fullyrt um hvort hjólin voru nógu vel fest, en ég hef séð talsvert af fólki með hjól á toppi bíla í öllum veðrum og vindum, allt upp í 4-5 hjól. Ég get ekki séð að þessir bílar aki neitt hægar en aðrir þó þeir séu með farm á þakinu og þetta vakti mig virkilega til umhugsunar.“

Ómar segir að hann vilji vekja athygli á því hvers konar hætta getur stafað af því að aka um með hjól. „Þarna hefði auðveldlega getað orðið stórslys. Það eru margir sem aka um með reiðhjól á bílnum og ég vona að þetta veki einhverja til umhugsunar.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir