Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Danaprins á sjúkrahúsi vegna blóðtappa í heila

25.07.2020 - 17:50
Jóakim Danaprins
 Mynd: Steen Brogaard - Kongehuset.dk
Jóakim Danaprins, yngri sonur Margrétar Þórhildar Danadrottningar og Hinriks heitins Danaprins, gekkst í gær undir aðgerð á sjúkrahúsinu í Toulouse í Frakklandi vegna blóðtappa í heila.

Frá þessu er sagt á vefsíðu dönsku hirðarinnar. Þar segir að prinsinn hafi lagst inn á sjúkrahúsið í gær, farið í aðgerðina skömmu síðar. Hún hafi gengið vel og að líðan prinsins sé stöðug. Marie prinsessa, eiginkona Jóakims er hjá honum á sjúkrahúsinu.

Hjónin fluttu til Frakklands í fyrra þar sem Jóakim hóf nám við Herskólann (École Militaire) í París og fyrr í sumar hóf hann störf í danska sendiráðinu í París sem varnarmálasérfræðingur.

Jóakim, sem fullu nafni heitir Joachim Holger Waldemar Christian, er fæddur 7. júní 1969 og er því rúmlega 51 árs. Hann er giftur Marie prinsessu, sem er frönsk og eiga þau tvö börn, Athenu og Henrik. Hann var áður giftur Alexöndru, sem nú er greifynja af Frederiksborg og þau eiga saman synina Nikolai og Felix.