Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

14.000 jarðskjálftar hafa mælst á Tjörnesbrotabeltinu

Tjörnesbrotabeltið 25.7.20
Kortið sýnir jarðskjálfta á Tjörnesbrotabeltinu síðustu 48 klukkustundir. Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjáskot
Nokkuð hefur dregið úr skjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu. Færri skjálftar mælast nú á sólarhring og þeir eru minni. Enn má þó búast við stærri skjálftum á svæðinu, jarðskjálfti af stærðinni 3 varð á níunda tímanum í morgun og frá miðnætti til klukkan hálf 12 í morgun mældust þar 74 skjálftar.

Kristín Elísa Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að 14.000 jarðskjálftar hafi mælst á svæðinu síðan hrinan hófst 19. júní, þar af hafa 3.600 verið yfirfarnir af Veðurstofu. Stærstu skjálftarnir urðu á fyrstu dögum hrinunnar og mældust þeir yfir 5 að stærð.

„Frá miðnætti til klukkan 11:30 í morgun mældust þarna 74 skjálftar og þar af einn af stærðinni 3 klukkan 8:41,“ segir Kristín Elísa. Sá skjálfti varð tæpa 22 kílómetra norðaustur af Siglufirði og hún segir að honum hafi ekki fylgt margir skjálftar. Hún segir að þar sem skjálftinn hafi átt upptök sín á hafi úti hafi hann líklega ekki fundist.

Tjörnesbrotabeltið er annað tveggja þverbrotabelta hér á landi og tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið. 

Kristín Elísa segir að þetta sé líklega með stærri hrinum síðan jarðskjálftamælingar hófust. „Líklega mældust þó fleiri skjálftar í Holuhraunsgosinu. Svona margir skjálftar eru ekki merki um gosóróa, þetta er spennulosun á brotabelti þar sem flekana rekur í sundur.“