Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Yfirlýsingar Ragnars Þórs „út úr öllu korti“

24.07.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Seðlabankastjóri segir að tryggja þurfi sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða, í samþykktum sjóðanna og mögulega með lögum. Hann segir yfirlýsingar formanns VR, um að stjórnarmönnum VR í Lífeyrissjóði verslunarmanna verði skipt út ef þeir fari ekki að tilmælum stéttarfélagsins, út úr öllu korti.

 

Stjórn stéttarfélagsins VR beindi í síðustu viku þeim tilmælum til stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, að sniðganga eða greiða atkvæði gegn því að sjóðurinn taki þátt í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Ástæðan var framganga Icelandair í kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að stjórnarmönnum VR, sem óhlýðnuðust þessum tilmælum félagsins, yrði skipt út. Fréttablaðið greinir frá því í dag að Seðlabankinn ætli að beita sér fyrir því að sjálfstæði stjórna lífeyrissjóðanna verði tryggt.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að stjórnarmenn eigi ekki að ganga erinda neinna nema sjóðsfélaga. Yfirlýsingar Ragnars Þórs veki áhyggjur af sjálfstæði stjórnar lífeyrissjóðsins. 

„Mér finnst þær alveg út úr öllu korti. Og þetta er einmitt þau tilmæli sem fjármálaeftirlitið sendi lífeyrissjóðunum, ma. Lífeyrissjóði verslunarmanna fyrir ári síðan, að samþykktum sjóðanna yrði breytt þannig að það væri ekki hægt að taka stjórnarmenn út fyrirvaralaust. Og í raun af því að ég tel að með því séu tilnefningaraðilar að taka sér óeðlilega mikil völd og brjóta reglur um góða stjórnarhætti,“ segir Ásgeir.

Fjármálaeftirlitið beindi tilmælunum til Lífeyrissjóðs verslunarmanna í fyrra eftir að VR skipti út stjórnarmönnum sínum í sjóðnum. Sömu tilmæli voru síðan send til annarra lífeyrissjóða. 

„Við viljum gjarnan fylgja því bréfi eftir núna, og gefa sjóðunum færi á því að tryggja góða stjórnarhætti,“ segir Ásgeir. „Síðan má mögulega athuga með lagabreytingu svo það sé tryggt að stjórnarmenn séu sjálfstæðir og það sé útilokað að utanaðkomandi aðilar geti haft áhrif.“

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV