Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

VR dregur yfirlýsingu um málefni Icelandair til baka

24.07.2020 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn VR hefur samþykkt að draga yfirlýsingu vegna málefna Icelandair til baka. Í yfirlýsingunni voru stjórnarmenn sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hvattir til að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Yfirlýsingin kom í kjölfar fregna um að Icelandair hyggðist slíta kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands.

Í færslu á vef VR segir að verkahlýðshreyfingin hafi gengið fastlega fram þegar samningsréttinum var ógnað. 

„Samningsrétturinn er grundvöllur kjarasamninga og stéttarbaráttunnar. Hann er jafnframt grundvöllur fyrir þeim lífskjörum og réttindum sem við teljum sjálfsögð í okkar samfélagi en hafa áunnist með samstöðu vinnandi stétta,“ segir í færslunni. 

Margir lýstu undrun sinni á yfirlýsingu VR um sniðgöngu á hlutafárútboði Icelandair. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, sagði að með yfirlýsingunni hefði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, farið út fyrir sitt verksvið. Þá gagnrýndi Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri yfirlýsinguna í samtali við fréttastofu í dag.