Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vísitala neysluverðs hækkaði óvænt á milli mánaða

24.07.2020 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,15% á milli mánaða, en spáð hafði verið að hún myndi lækka. Verðbólga í júlí er 3%, en var 2,6% í júní og áhrif af sumarútsölum voru minni en ráð var gert fyrir. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að föt og skór hafi lækkað um 3,6% á milli mánaða, sem hafi komið verulega á óvart því að síðustu ár hafi þessi liður lækkað um meira en 10% á milli mánaða í júlí. 

Þá lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður mun minna í verði á milli mánaða en síðustu ár. Tómstundir og menning hækkuðu um 0,58% á milli mánaða og meðal annars hækkaði heilsurækt um 4% á milli mánaða. Verðhækkun á bensíni nam 2,9% á milli mánaða sem er aðeins meiri hækkun en verðmæling hagfræðideildarinnar hafði gert ráð fyrir.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,17% á milli mánaða og verðbólga án húsnæðis mælist nú 3,3%.

Hagfræðideild Landsbankans reiknar með 0,2% hækkun verðlags í ágúst, 0,1% í september og að verðlag verði óbreytt í október. Gangi sú spá eftir verður ársverðbólgan 2,6% í október

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir