Verðlaunahöfundur fær hæli á Nýja Sjálandi

epa08563534 (FILE) Kurdish-Iranian born journalist Behrouz Boochani looks on in Christchurch, New Zealand, 19 November 2019 (reissued 24 July 2020). On 23 July, Boochani was formally recognized as a refugee and granted a visa to live in New Zealand. The 37-year-old had spent six years in an Australian-run detention centre in Papua New Guinea and later became the voice of those incarcerated on Manus Island.  EPA-EFE/MARTIN HUNTER AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Behrouz Boochani  Mynd: EPA-EFE - AAP

Verðlaunahöfundur fær hæli á Nýja Sjálandi

24.07.2020 - 08:41

Höfundar

Flóttamaður og rithöfundur, sem skrifaði verðlaunabók á farsíma sinn í flóttamannabúðum á Papúa Nýju-Gíneu, hefur fengið hæli á Nýja Sjálandi. Honum var tilkynnt um hælisveitinguna á 37 ára afmælisdegi sínum í gær. 

Behrouz Boochani, sem er Kúrdi, flýði heimaland sitt Íran árið árið 2013. Hann komst til Indónesíu, en ætlaði þaðan til Ástralíu. Honum var ásamt fleirum bjargað af sökkvandi skipi í ástralskri lögsögu og var fluttur í búðir fyrir hælisleitendur sem Ástralar reka á Manus-eyju í Papúa Nýju-Gíneu.

Þar fór hann að skrifa á símann sinn um flóttann frá Íran, dvöl sína á Manus-eyju og stefnu Ástrala í málefnum flóttamanna og hælisleitenda, en á Manus-eyju og í eyríkinu Nauru hafa Ástralar haldið fjölda flóttamanna og hælisleitenda, mörgum þeirra árum saman. 

Boochani sendi skrif sín útgefanda í Ástralíu, sem fyrir tveimur árum gaf þau út á bók, No Friend But The Mountains. Vakti bókin mikla athygli og hefur Boochani hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir skrif sín, þar á meðal Viktoríuverðlaunin, helstu bókmenntaverðlaun Ástralíu. 

Boochani tók einnig myndir á símann sinn sem settar voru saman í heimildamynd um ástandið í Manus-búðunum og var myndin sýnd á kvikmyndahátíðinni í Sydney 2017. 

Boochani komst til Nýja Sjálands í fyrra þar sem hann hefur dvalið síðan. Þar hyggst hann halda áfram baráttu sinni fyrir réttindum flóttamanna og hælisleitenda og vekja athygli á stöðu þeirra.