Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Varar við nikótínpúðum: „Nikótín getur verið banvænt“

24.07.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia
Sala á neftóbaki hefur dregist verulega saman undanfarna sex mánuði. ÁTVR tengir þetta vinsældum nýrra nikótínpúða sem teknir eru í vörina og innihalda ekki tóbak. Doktor í lýðheilsuvísindum segir púðana líklega skárri en neftóbak en vísar fullyrðingum söluaðila um að nikótín valdi ekki sjúkdómum á bug. Of stór skammtur geti verið banvænn. 

Tengir minni rafrettunotkun líka púðunum

Á fyrri hluta þessa árs dróst sala á neftóbaki saman um rúman þriðjung. Þetta kemur fram í svari ÁTVR við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þá sýndi nýleg rannsókn Rannsókna og greiningar fram á að rafrettunotkun unglinga væri á hraðri niðurleið. Í fyrra kváðust 12% tíundubekkinga í Reykjavík nota rafrettur, í ár var hlutfallið 6%. Forsvarsmenn rannsóknarinnar telja þetta tengjast bættri fræðslu en Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum telur að nikótínpúðarnir, sem fást í hringlaga öskjum í sjoppum og snusbúðum hafi komið í staðinn. Lára segir að líklega séu púðarnir skárri en neftóbak og hægt að nota þá til þess að venja sig af tóbaksnotkun en henni finnst skjóta skökku við að þeir séu ekki flokkaðir sem lyf. „Það sem virðist hafa gerst í tengslum við rafrettulögin er að það opnaðist ný gátt fyrir hvern sem er til að flytja inn nikótín, sem er strangt til tekið lyf í þessum skilningi. Það þarf að setja reglur um það og það á eingöngu að vera notað í þeim tilgangi að hjálpa fólki að losna undan nikótínfíkn. Við erum að tala um vöru sem er náttúrulegt eiturefni og þarf að umgangast með mikilli varkárni.“ Hún hefur sérstaklega áhyggjur af börnum og unglingum sem prófa púðana og ánetjast nikótíni. Það sé enginn leikur að vinna bug á fíkninni. 

Of stór skammtur geti verið banvænn

Skammtastærðirnar valda henni sérstökum áhyggjum. Í nikótíntyggjói sé styrkur nikótíns í mesta lagi 4milligrömm en í púðunum geti hann farið upp í 36. „Hér erum við að tala um næstum tífalt hærri styrkleika sem ætti að vera undir eftirliti, þú ert að nálgast þann styrkleika sem er talinn geta verið banvænn.“

Lára segir talið að 50 - 60 milligrömm geti verið banvænn skammtur fyrir fullorðna, en ungbörn geti dáið eftir að hafa innbyrt eitt milligramm. 

Segir nikótín víst valda sjúkdómum

Á vefsíðum innflytjenda er talað um að púðarnir geti nýst fólki sem vill hætta að nota tóbak. ­Þá er á einum stað fullyrt að engar rannsóknir hafi sýnt fram á að nikótín eitt og sér valdi sjúkdómum. Þessu mótmælir Lára: „Þetta er bara rangt.“ Efnið geti valdið slæmum eitrunareinkennum, skaðað fóstur, valdið öndunarbælingu og hjartsláttartruflunum. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV