Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tími villisveppanna runninn upp

24.07.2020 - 19:32
Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV
Tími villtra sveppa í náttúrunni er runninn upp. Sveppatínsla nýtur sífellt meiri vinsælda hér á landi. Greina þarf sveppi gaumgæfilega til að ganga úr skugga um að þeir séu ætir.

Á Íslandi eru þekktar meira en þúsund tegundir af sveppum. Um tuttugu til þrjátíu þeirra telst óhætt að nýta til matargerðar. Sveppir reiða sig á rótarkerfi trjáa í uppvextinum og finnast því gjarnan í skóglendi. Færst hefur í vöxt að fólk leiti að góðum matsveppum í náttúrunni.

„Raunverulega trixið er að þekkja eina tegund til að byrja með. Svo bætir maður annarri við, kannski árið eftir. Svo er maður kannski kominn með fjórar, þá er maður orðinn ansi góður. Ég held að ég safni yfirleitt svona tveimur sjálf.“ segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Norðanlands finnst meira af lerkisveppum en í grennd við höfuðborgarsvæðið er furusveppur algengari. Kúalubba er síðan að finna um allt land. Hann vex gjarnan í grennd við birki. Sveppirnir eru bragðmeiri en hefðbundnir ræktaðir sveppir.

„Og svo má segja að það sé villt bragð af þessum sveppum en þetta fer eftir tegundum. Svo verður maður að ná góðu efni, sko hráefni. Þetta þarf að vera ferskt og gott þegar maður nær því. Flúðasveppir standa alltaf fyrir sínu.“ segir Guðríður Gyða.

Þegar farið er í sveppamó er nauðsynlegt að vanda valið og skoða sveppina vel því lirfur sveppamýs lifa oft góðu lífi í sveppunum. Sveppirnir eru svo ýmist frystir eða þurrkaðir að lokinni tínslu. Sveppi er best að tína síðsumars og Guðríður Gyða vonar að sveppasumarið verði gjöfult.

„Tíminn er kominn núna. Þeir fara að bera aldin, ef það rignir almennilega þá getur komið gusa af nýju efni. Mjög sniðugt að ná sér í það meðan það er til staðar og maður þarf bara að fylgjast með.“ segir Guðríður Gyða.