Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Seðlabankastjóri vill tryggja sjálfstæði stjórnarmanna

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Seðlabankinn mun beita sér fyrir því að sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða verði tryggt til frambúðar og eyða öllum grunsemdum um skuggastjórnun.

Þetta hefur Fréttablaðið eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra. „Ég tel að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa,“ segir Ásgeir og kveður það sitt mat að stíga þurfi mun fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna.

Segir Ásgeir tilmæli stjórnar VR til stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna um sniðgöngu á væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair vera þarfa áminningu um mikilvægi þess að þétta varnir í kringum sjálfstæða ákvarðanatöku innan lífeyrissjóða.

Vandamálið sé ekki nýtt af nálinni og muni dúkka upp aftur. Þess vegna sé mikilvægt að að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna til frambúðar.

Seðlabankinn ætlar því að ræða við fjármála- og efnahagsráðuneytið og aðrar viðeigandi stofnanir um að fjármálaeftirlit bankans fái frekari heimildir til inngripa.

„Hvernig getur stjórnarmaður verið sjálfstæður þegar hægt er að skipta honum út hvenær sem er – vegna þess að tilnefningaraðilanum líkar ekki við ákvarðanir hans?“ spyr Ásgeir. „Það er óþolandi ef sjóðfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geta ekki gengið að því vísu að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra.“