Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rúmar fjórar milljónir kórónaveirusmita í Bandaríkjunum

24.07.2020 - 03:10
epa08562922 People queue in their cars to get the COVID-19 coronavirus testing service by the Florida Army National Guard partnered with the City of Miami Beach and the Florida Department of Health, at the testing location at Miami Beach Convention Center in Miami Beach, Florida, USA, 23 July 2020. Florida announced today 173 new resident deaths from COVID-19, the highest number announced for any day since the start of the pandemic.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kórónaveirufaraldurinn heldur áfram að breiðast út um Bandaríkin með ógnarhraða og hefur staðfestum smittilfellum fjölgað úr þremur í ríflega fjórar milljónir á síðustu fimmtán dögum.

76.570 manns voru greind með COVID-19 þar undanfarinn sólarhring og hafa aðeins einu sinni verið fleiri á einum degi. Það var fyrir réttri viku, þegar 77.300 ný smit voru staðfest. Þá létust 1.225 manns úr COVID-19 í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn svo vitað sé. Er þetta annar dagurinn í röð sem yfir 1.100 dauðsföll eru rakin til farsóttarinnar þar í landi, en svo margir hafa ekki dáið úr COVID-19 á einum degi síðan í maí.

Alls eru staðfest smit nú um 4.035.000 talsins og dauðsföllin rúmlega 144.000, samkvæmt gögnum Johns Hopkins-háskólans í Maryland. Ástandið hefur heldur farið skánandi víðast hvar í norðurríkjum Bandaríkjanna en að sama skapi versnað stórlega í landinu sunnanverðu, einkum í Flórída, Texas, Alabama og Kaliforníu.