Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Næturstemmur úr Norðfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Coney Island Babies - Facebook

Næturstemmur úr Norðfirði

24.07.2020 - 14:24

Höfundar

Platan Curbstone er önnur plata hljómsveitarinnar Coney Island Babies sem á varnarþing í Neskaupstað. Curbstone er plata vikunnar á Rás 2.

Hljómsveitin Coney Island Babies var stofnuð í Neskaupstað árið 2004 en hana skipa Geir Sigurpáll Hlöðversson, Guðmundur Höskuldsson, Hafsteinn Már Þórðarson og Jón Knútur Ásmundsson. Hljómsveitin gaf út plötuna Morning to Kill árið 2012 og sá um undirleik fyrir Guðmund R., sveitunga sinn, á plötunni Þúsund ár (2017). Platan var tekin upp í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði, Stúdíó Ris í Neskaupstað og Eyranu í Reykjavík frá október 2019 til febrúar 2020. Upptökum á plötunni stjórnaði Jón Ólafsson, Albert Finnbogason hljóðblandaði og Jón Skuggi hljómjafnaði.

Merkilegt

Þetta er um margt merkilegt band og gripur. Sveitin nefnir m.a. til Tindersticks og Nick Cave sem áhrifavalda og þunglyndisleg nýbylgja níunda og tíunda áratugarins er að sönnu til grundvallar hér. Veri það í í gítarspili, almennum hljómi eða lagauppbyggingu. Söngurinn liggur einhvers staðar á milli Stuart Staples, Nick Cave og Jarvis Cocker, öskubakkalegur en um leið flauelsmjúkur baritónn. Meira að segja kynningarmyndirnar af bandinu líta út eins og þær hafi verið teknar í öngstræti í Nottingham árið 1989 fremur en austur á fjörðum.

Tónlistin er líka eftir þessu og nokkuð nákvæmlega. Hvergi er gerð tilraun til að finna upp hjólið enda síst tilgangurinn get ég ímyndað mér. Platan rennur annars afskaplega vel og þetta er einkar sannfærandi heiðrun til þessa tímabils og þessarar stefnu. Eða ættum við frekar að segja tónlistarlegrar áherslu? Sjá t.d. „Swirl“ sem er ein best heppnaðasta smíðin hér. Letilegt rökkurgrúv keyrir lagið og smekklegir strengir styðja fallega við. Píanóleikur á hárréttum stað. Epík og drama – týnda Tinderstickslagið? Söngurinn í þessum sorgbundna, eftirsjálega gír sem er mjög svo við hæfi. Annað efni er meira og minna með þessum hætti en lögin eru misvel heppnuð eðlilega. Sum eru heldur tilþrifalítil og sigla of lygnan sjó í hafbreiðu rökkurskotinnar nýbylgju.

Opnunarlagið, „Stars“, eins þokkafullt og það er nú annars, lýtur þessu að vissu leyti. Næsta lag, „You and I“ er svipað og það er visst hik í söngnum, viss fjarlægð sem gengur illa upp með laginu. Smá Tabasco hefði verið gott hérna. 2,3 dropar. Titillagið, „Curbstone“ er hins vegar gott, mjög Cave-legt, en allt er innan rammans í þessu tilfelli og lagið gengur upp. „Molly“ er ágætis „ósungin“ stemma en „She lays me down“ viðheldur myrkraballöðustemningunni. Ég vil vera mjög skýr með það, að rappkaflanum hefði algerlega mátt sleppa! „According to Plan“ er hefðbundið og sök sér hefði mátt vera ögn meiri ævintýraþrá í lagasamningu. Lagið er í móti þessara áhrifavalda sem nefndir hafa verið en skortir tilfinnanlega sérkenni engu að síður. Í lokalaginu, „It‘s all the same way“ stendur mannskapurinn svo upp frá settlegu borðhaldinu, losar um bindin og stígur trylltan dans uppi á borðum. Geir Sigurpáll söngvari lækkar röddina talsvert, syngur í djúpbassa og lagið er hrátt og hryssingslegt. Spennuþrunginn stígandi, frábær gítar og svo er endað í óhljóðaorgíu. Glæsismíð.

Óður

Heilt yfir er þetta gott verk, vel til fundinn óður á margan hátt og allar lausnir góðar. Sveitin getur verið stolt af framkvæmdinni. Á köflum skortir aðeins á tilþrif eins og ég hef þegar nefnt en heildarsvipurinn nær að trompa það allt saman.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fjallar um að finna tenginguna við náttúruna og núið

Popptónlist

Að endimörkum alheimsins

Popptónlist

Hvöss og rífandi nýbylgja

Popptónlist

Einlægt nútímapopp