Margir búnir að sækja ferðagjöf en færri nýta

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Þegar hafa um 44 þúsund nýtt ferðagjöf stjórnvalda. Yfir 100 þúsund er búnir að sækja hana. Elías Gíslason, forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Ferðamálastofu segist svolítið hissa á því að fleiri séu ekki búnir að nýta gjöfina, það sé svo langt liðið á sumarið. Hann hvetur fólk til að nýta gjöfina en minnir þó á að hún gildir út árið.

Rúmlega 900 fyrirtæki taka við ávísuninni, Elías segir að það bætist stöðugt í hópinn. Flestir hafa nýtt gjöfina á hótelum Icelandair, næstflestir hafa flogið yfir Ísland í sýndarveruleika, hjá afþreyingarfyrirtækinu Fly over Iceland. Elías segist ánægður með hversu víða ferðagjöfin hefur verið nýtt. 

Landshlutatölfræði segir ekki alla söguna

Á vef Ferðamálastofu er að finna yfirlit yfir nýtingu gjafarinnar eftir landshlutum. Flestir virðast nota hana  til að kaupa þjónustu á höfuðborgarsvæðinu en virði ávísana sem nýttar hafa verið þar nemur 87 milljónum. Elías segir þó að það sé ekki alveg að marka þetta, við skráninguna er nefnilega ekki horft til þess hvar fyrirtækin sem skipt er við eru staðsett, heldur hvar kennitala fyrirtækisins er skráð. Flestar stóru hótelkeðjurnar eru skráðar á höfuðborgarsvæðinu þó hótel þeirra séu víða um landið og það skekkir myndina. 

Eldri borgarar hafa samband

Ekki eru allir með það á hreinu hvernig skuli nota gjöfina. Nokkuð er um að fyrirtæki hafi samband við til að fá leiðbeiningar um hvernig þau taki við gjöfinni. Ferðamálastofa hefur líka fengið fyrirspurnir frá eldri borgurum, sem ekki eiga snjallsíma, um hvernig best sé að bera sig að. 

Á vefnum ferdalag.is má nálgast leiðbeiningar um þetta. Hægt er að nálgast gjöfina með því að skrá sig inn á Ísland.is og hlaða niður smáforritinu Ferðagjöf, strikamerki í appinu er svo skannað við kaup á þjónustu. Á vefnum segir að þeir sem ekki eiga snjallsíma geti nýtt gjöfina beint inni á Ísland.is. 

Ferðagjöfin er liður í aðgerðapakka stjórnvalda vegna heimsfaraldursins og er henni ætlað að styðja við ferðaþjónstuna. Gjöfina fá þau sem eru með lögheimili á Íslandi, íslenska kennitölu og fædd árið 2002 eða fyrr.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi