KSÍ hefur ekkert eftirlit með UEFA-styrkjum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

KSÍ hefur ekkert eftirlit með UEFA-styrkjum

24.07.2020 - 17:43
KSÍ hefur ekki eftirlit með því hvernig þau 12 íþróttafélög, sem fengu í fyrra fimm milljóna króna styrk frá Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, sem eyrnamerktur er börnum og unglingum, verja fénu. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ segir að aðkoma sambandsins að málinu sé takmörkuð.

FH er eitt þeirra tólf félaga hér á landi sem fengu styrkinn frá UEFA í fyrra. Um er að ræða hluta tekna UEFA af meistaradeild sambandsins og styrkurinn er veittur þeim félögum sem eiga lið í efstu deild karla í knattspyrnu.

Styrkurinn rann inn í aðalsjóð FH og hefur barna- og unglingaráð félagsins gert athugasemd við það. Klara segir að félögunum sé í sjálfsvald sett hvernig þau verji þessu fé. „Þetta framlag er frá UEFA til viðkomandi félaga og er í rauninni ekki háð neinum skilyrðum frá KSÍ eða eftirlitsskyldu eða öðru slíku,“ segir Klara. 

KSÍ greindi frá styrkjunum á vefsíðu sinni í október í fyrra. Þar segir að samtals sé um að ræða um 60 milljónir króna sem eigi að renna til eflingar knattspyrnu barna- og unglinga. Í kjölfar þessara styrkveitinga samþykkti stjórn KSÍ að leggja til 60 milljónir til barna- og unglingastarfs í öðrum deildum og utan deilda. Þær greiðslur, líkt og greiðslan frá UEFA, eiga að renna óskiptar til eflingar knattspyrnu barna og unglinga upp í 2. aldursflokk. Klara segist ekki eiga von á að KSÍ bregðist við ábendingum barna- og unglingaráðs FH.

„Í fljótu bragði get ég ekki séð það,“ segir Klara. „Þetta er framlag frá UEFA til viðkomandi félaga og aðkoma KSÍ að málinu er fremur takmörkuð.“

 

 

 

 

 

 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Segir knattspyrnudeildina skulda ráðinu 18 milljónir

Fótbolti

Lán unglingaráðs FH sagt hlutdeild í kostnaði