Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Klúr texti í prentara kveikti ófriðarbál á Suðurnesjum

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ósæmilegur texti sem lögreglustjóri prentaði út í sameiginlegum prentara á lögreglustöðinni varð til þess að upp úr sauð hjá lögreglunni á Suðurnesjum í byrjun maí. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Dómsmálaráðuneytið hefur til meðferðar starfsmannamál sem tengjast embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur samkvæmt heimildum fréttastofu lagt til við Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra á Suðurnesjum að hann hætti störfum sem lögreglustjóri. Við því hefur hann ekki orðið. Mikil ólga ríkir innan embættisins og hafa tveir starfsmenn kvartað undan framgöngu lögreglustjórans og aðrir tveir undan einelti af hálfu tveggja yfirmanna embættisins. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu sauð upp úr hjá embættinu í byrjun maí, eftir að lögreglustjórinn prentaði út klúran texta í miðlægum prentara á lögreglustöðinni við Brekkustíg í Njarðvík. Textinn virðist hafa verið hluti af lengra skjali, en pappírinn í prentaranum hafi klárast áður en hann lauk við að prenta. Textinn birtist því næsta starfsmanni sem hlóð prentarann, og var fljótlega á flestra vitorði á stöðinni. Skömmu síðar barst trúnaðarmanni erindi frá starfsmanni sem taldi póst lögreglustjórans með öllu óviðeigandi og sérstaklega að tölvubúnaður embættisins væri notaður til skrifa eða prenta slíkan texta. Erindi starfsmannsins hafnaði síðan í dómsmálaráðuneytinu. Fréttastofa hefur líka heimildir fyrir því að lögreglustjórinn eigi til að hafa fataskipti fyrir opnum tjöldum á skrifstofu sinni, og hafi þannig sært blygðunarkennd starfsfólks. 

Ólafur Helgi Kjartansson kvaðst ekki kannast við málið þegar fréttastofa bar það undir hann, og sagðist ekkert hafa um það að segja.