Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kínverjar loka ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Chengdu

24.07.2020 - 04:40
Mynd með færslu
Um 200 manns starfa í ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Chengdu, þar af um 150 heimamenn sem nú munu að öllum líkindum missa vinnuna. Mynd: Bandaríska utanríkisráðuneyt
Kínversk stjórnvöld tilkynntu í morgunsárið að ræðisskrifstofa Bandaríkjanna í borginni Chengdu í Suðvestur-Kína hefði verið svipt starfsleyfi og yrði gert að loka innan skamms. Er þetta svar Kínverja við fyrirmælum Bandaríkjastjórnar um lokun á kínversku ræðisskrifstofunni í Houston í Texas fyrr í vikunni.

Í tilkynningu frá kínverska utanríkisráðuneytinu segir að lokun ræðisskrifstofunnar í Chengdu sé réttmætt og nauðsynlegt viðbragð við óréttmætum aðgerðum Bandaríkjanna. „Sú staða sem nú er uppi í samskiptum Kína og Bandaríkjanna er ekki eins og Kina gjarnan vildi að hún væri, og bera Bandaríkin alfarið ábyrgð á því,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Bandaríska ræðisskrifstofan í Chengdu var sett á laggirnar árið 1985. Þar starfa um 200 manns, þar af um 150 heimamenn.

Bandarísk stjórnvöld fyrirskipuðu lokun kínversku ræðisskrifstofunnar í Houston á miðvikudag og gáfu Kínverjum þriggja sólarhringa frest til að fara að fyrirmælunum.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þetta gert til að sýna Kínverjum að stórtækur þjófnaður kínverska kommúnistaflokksins á bandarískum hugverkum og tækni yrði ekki liðinn öllu lengur og Repúblikaninn Marco Rubio, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, fullyrti að ræðisskrifstofan í Houston væri miðpunktur víðtæks njósna- og aðgerðanets Kínverja vestanhafs.