Fimm frísk fyrir klúbbinn

Mynd með færslu
 Mynd: Avalanches - Avalanches Facebook

Fimm frísk fyrir klúbbinn

24.07.2020 - 13:00

Höfundar

Nú verður dansað inn í helgina því fimman er sérstaklega dansvæn að þessu sinni - þrátt fyrir að flestir klúbbar séu lokaðir. Nú verður boðið upp á brjálað stuð, suðræna stemningu, sand á milli tánna, sól í sinni, aukalag og ólgandi kynorku.

Avalanches ft Jamie xx, Neneh Cherry & Calypso - Wherever You Go

Ástralarnir hressu í Avalanches voru heldur betur með stúdíópartý einhvern tímann um daginn og buðu greinilega í það Neneh Cherry, Jamie og Calypso. Þegar fólk vaknaði eftir gleðskapinn kom í ljós lagið Wherever You Go sem er gallsúr en skemmtilegur bræðingur.


David Penn - The Heat

David Penn er heldur betur að negla það með laginu sínu The Heat sem hefur nákvæmlega öll kryddin og akkúrat nógu mikinn sykur til að stelpurnar verði alveg snarvitlausar á dansgólfinu.


Love Regenerator, Steve Lacy - Live Without Your Love

Það eru fleiri að negla stelpurnar alveg vitlausar á dansgólfinu en David Penn, og næstir í röðinni eru Love Generator og söngvarinn Steve Lacy. Love Generator er, eins og fólk veit kannski, súperstjarnan Calvin Harris sem hefur sett fleiri lög á topp breska listans en ABBA, Spice Girls, Rihanna, Ed Sheeran, The Rolling Stones, Oasis, George Michael, Michael Jackson, Kylie Minogue, U2 og Elton John svo einhverjir séu nefndir.


Sonny Fodera, Dom Dolla - Moving Blind

Samstarf Sonny Fodera og Dom Dolla í laginu Moving Blind hefur verið að slá í gegn á heimaklúbbnum og hefur rakað til sín yfir milljón streymum undanfarna daga. Nú setja þeir félagar stefnuna á útvarpsspilun á lagi sínu Moving Blind.


Michael Bibi - Lemonade

Enn eitt sjóðheitt danslagið í fimmunni er svalandi tekk-hús slagarinn með jözzuðu slagsíðunni Lemonade. Það er lagið sem meðal annars landaði Solid Groove stofnandanum Michael Bibi - Essential Mix slotti á BBC Radio 1.


Jimi Tenor - Lovers Bridge

Það hefur ekki heyrst í furðu-Finnanum Jimi Tenor lengi en hann slær botninn í fimmuna í dag með instrumental-slagara sínum Lovers Bridge sem er þrátt fyrir titilinn alls ekkert vangalag.