Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Farþegar BA rukkaðir um COVID-próf fyrir Íslandsferð

24.07.2020 - 08:11
epa08174655 (FILE) - British Airways (BA) aircrafts are seen at Heathrow Airport in London, Britain, 16 January 2020 (reissued 29 January 2020). Media reports on  29 January 2020 state British Airways has suspended all flights to and from mainland China with immediate effect amid the ongoing coronavirus crisis.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
British Airways hefur beðist afsökunar á því að hafa krafið farþega, sem voru á leið til Íslands, um að fara í sýnatöku fyrir COVID-19 fyrir brottför. Þetta gerði flugfélagið þrátt fyrir að íslensk yfirvöld hafi lýst því yfir að ekkert mark yrði tekið á slíkum sýnatökum. COVID-prófið sem ferðamennirnir voru skikkaðir í kostaði 150 pund eða 26 þúsund og þeir þurftu síðan einnig að greiða fyrir annað COVID-próf á Keflavíkurflugvelli.

Þetta kemur fram á vef Independent. Þar er haft eftir Clive Stacey, framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Discover the World, að hann hafi gert nokkrar tilraunir til að fá þetta leiðrétt en talað fyrir daufum eyrum hjá flugfélaginu.

Stacey þekkir vel til Íslands en hann hefur unnið að skipulagningu hópferða frá Bretlandseyjum til Íslands í meira en þrjá áratugi.

Allir ferðamenn eru skimaðir fyrir COVID-19 við komuna til landsins nema þeir velji að fara í tveggja vikna sóttkví.  Sex lönd eru undanskilin; Færeyjar, Grænland, Danmörk, Finnland, Noregur og Þýskaland.  

Í umfjöllun Independent kemur fram að farþegarnir hafi upphaflega átt að fljúga með Icelandair. Þegar flugfélagið aflýsti flugi sínu var þeim útveguð ferð með British Airways, eins og lög gera ráð fyrir.

Breska flugfélagið krafðist þess hins vegar að farþegarnir færu sýnatöku fyrir flugið þrátt fyrir skýrar reglur á Íslandi um skimun eða sóttkví. Og að erlend heilbrigðisvottorð yrðu ekki tekin gild.

Stacey segir að þessi ruglingur hafi verið slæm byrjun á ferð til lands sem sé nánast laust við COVID-19. „Ísland er drauma-áfangastaður fyrir fólk sem vill flýja undan ástandinu,“ hefur Independent eftir Stacey.

British Airways baðst síðar afsökunar en þó ekki fyrr en Independent sendi fyrirspurn um málið. Áður hafði Stacey gert nokkrar tilraunir til að fá þessu hnekkt.  „Við hvetjum farþega til að kynna sér þær reglur sem gilda í hverju landi fyrir sig,“ hefur blaðið eftir talsmanni British Airways.

Von er á tuttugu vélum til landsins í dag, að því er fram kemur á vef Isavia.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV