Erlendir nemar hætta við nám í HÍ vegna COVID-19

24.07.2020 - 07:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Starfs­fólk skrif­stofu alþjóðasam­skipta Há­skóla Íslands hef­ur orðið vart við að er­lend­ir nem­end­ur hætti við fyrirhugað nám við háskólann vegna kórónuveirufaraldurins.

Friðriku Þóra Harðardótt­ur, for­stöðumaður skrif­stofu alþjóðasam­skipta, segir í skriflegum svörum til fréttastofu þau vissulega verða vör við þetta.

1.550 erlendir nemendur voru skráðir í HÍ á síðasta skólaári, bæði skipt­inem­ar og er­lend­ir nem­ar á eig­in veg­um. Óvíst er hve marg­ir þeir verða næsta haust að sögn Friðriku sem segir aðstæður breytast nær daglega.

„Margir skólar hafa þegar tekið þá ákvörðun að taka fyrir skiptinám á haustmisseri að minnast kosti og heimila hvorki sínum nemendum að fara né að taka á móti nemendum. Aðrir nemendur sæta ferðatakmörkunum, erfitt að útvega fylgigögn og fá vegabréfsáritanir, eða sem er kannski algengara að þau treysti sér ekki til að ferðast á þessum óvissutímum. Sumir nemendanna sem ætluðu að koma hafa óskað eftir því að fresta skiptináminu í stað þess að hætta alveg við, ef heimaskólinn leyfir, og nemendur á eigin vegum hafa einnig verið að hætta við eða óska eftir frestun,“ segir Friðrika og kveður HÍ leitast við að sýna nemendum sveigjanleika sé þess kostur.

Skólinn hafi þó líka haft fréttir af erlendum nemendum sem eru að undirbúa komu eða eru jafnvel komnir til landsins.

„Þeir þurfa að hlíta sóttvarnarákvæðum eins og aðrir og vilja hafa tímann fyrir sér.“

Öryggisnefnd Háskóla Íslands hefur gefið út leiðbeiningar til nemenda og starfsmanna sem eru að koma erlendis frá náms eða starfa við Háskólann.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi