Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Eldur í grillaðstöðu á útivistarsvæði í Mosfellsbæ

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um eld á útivistarsvæði við Varmá í Mosfellsbæ á tíunda tímanum í kvöld. Mikinn reyk lagði af eldinum og var lið frá tveimur stöðvum sent á vettvang. Í ljós kom að kviknað hafði í yfirbyggðri grillaðstöðu og trépallinum sem hún stóð á. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eyðilagðist hvort tveggja pallurinn og yfirbyggingin í eldinum, sem einnig læstist í nærliggjandi gróður.

Eldurinn hafði þó ekki náð að breiða mikið úr sér þegar að var komið og vel gekk að ráða niðurlögum hans. Eldsupptök eru ókunn.

Þá bárust slökkviliðinu tilkynningar um tvo minniháttar gróðurelda í kvöld. Annar þeirra var í Ártúnsbrekkunni og var svo lítill að hann var „slökktur nánast með stígvélinu,“ eins og varðstjóri hjá slökkviliðinu orðaði það. Hinn var enn minni, reyndar svo lítll að slökkviliðsmenn fundu hann ekki þegar þeir komu á vettvang. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV