Ekki víst að takist að rekja uppruna smitanna

24.07.2020 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Verið er að leggja lokahönd á smitrakningu fyrstu tveggja innanlandssmitanna síðan í byrjun júlí. Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymisins, segir smitrakningu hafa gengið vel og henni sé að verða lokið. Búið sé að hafa samband við alla sem talið var nauðsynlegt að ná í. Á þriðja tug þurfa að fara í sóttkví vegna annars smitsins en innan við tíu í hinu.

Fyrstu tvö innanlandssmitin síðan í byrjun júlí greindust í gær. Báðir eru karlmenn, annar á tvítugsaldri en hinn á þrítugsaldri. Þeir eru búsettir hér á landi en ekki er talið að smitin tengist með neinum hætti. 

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að hvorugur þeirra hefði verið í útlöndum en sá eldri hafði verið í samskiptum við útlendinga sem komu nýlega til landsins.

Sá yngri keppti á frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði um helgina og hafa nokkrir keppendur á mótinu þurft að fara í sóttkví. Frjálsíþróttasamband Íslands fylgist grannt með framvindu mála en ekki stendur til að fresta móti sambandsins á Akureyri um helgina vegna málsins.

Keppendur frá Færeyjum voru á mótinu í Hafnarfirði um síðustu helgi en Jóhann Björn segir að þeir hafi verið metnir í mjög lágum áhættuhópi.

Fleiri sýnatökur eru nú í gangi hjá fólki sem er með einhver einkenni. Jóhann Björn segir að nú sé verið að vinna í því að reyna rekja upprunann en ekki er víst að það takist.   Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í fréttum RÚV að greina ætti veiruna til að reyna sjá hvaðan hún kæmi.

Sem stendur þurfa á þriðja tug að fara í sóttkví vegna annars smitsins en innan við tíu í hinu. Jóhann Björn segir ekki hægt að útiloka að fleiri þurfi að fara í sóttkví.

Báðir mennirnir voru með rakningarappið en Jóhann Björn segir að þeir hafi verið mjög meðvitaðir um hvar þeir voru sem hafi auðveldað vinnu rakningarteymisins. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi