Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bruninn á Bræðraborgarstíg talinn manndráp af ásetningi

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson - RÚV
Mannskæður eldsvoðinn sem varð á Bræðraborgarstíg 1 hinn 25. júní síðastliðinn er rannsakaður sem manndráp af ásetningi. Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem talinn er hafa kveikt í húsinu.

Fréttablaðið greinir frá og vísar í úrskurðinn, sem blaðið hefur undir höndum. Þrennt lést í brunanum og fjögur voru flutt á sjúkrahús, þar af tveir alvarlega slasaðir.

Hinn grunaði var handtekinn daginn sem eldsvoðinn varð og úrskurðaður í gæsluvarðhald nokkru síðar, sem svo var framlengt 15.júli. Í úrskurði Héraðsdóms frá þeim degi kemur fram að „ekki hafi verið rætt við kærða sjálfan vegna andlegra veikinda hans að undanförnu.“

Minnst fimm ára fangelsi 

Þar segir enn fremur að sakborningur liggi undir sterkum grun um að hafa brotið gegn 211. grein almennra hegningarlaga. Hún kveður á um að hver sá sem sviptir annan mann lífi skuli sæta allt að ævilöngu fangelsi, og ekki skemur en fimm ár.

„Þá er sakborningur einnig grunaður um brot gegn valdstjórninni, að hafa valdið eldsvoða sem olli almannahættu og að hafa stofnað lífi annarra í hættu,“ segir í frétt Fréttablaðsins.

Krafan um framlengingu gæsluvarðhalds, sem úrskurðurinn lýtur að, var samþykkt á þeim forsendum að óforsvaranlegt væri að hinn kærði gengi laus „þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo al­var­leg brot.“