Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bréf Maxwell og Epstein hluti rannsóknar

24.07.2020 - 06:32
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons
Dómari í New York hefur fyrirskipað að persónuleg skjöl Ghislaine Maxwell, fyrrverandi unnustu barnaníðingsins Jeffrey Epstein, skuli gerð aðgengileg fyrir rannsakendur.

Lögfræðingar Maxwell höfðu áður reynt að fá skjölin, sem sögð eru verulega persónuleg, útilokuð frá rannsókninni. Fullyrtu lögfræðingar hennar að opinberun gagnanna neyddi Maxwell til að svara ágengum spurningum um eigið kynlíf, sem fjölmiðlar séu líklegri til að misnota. Meðal gagnanna eru bréf sem Maxwell og Epstein sendu hvort öðru.

Guardian segir dómarann ekki hafa fallist á þau rök.

Maxwell, sem var handtekin í byrjun mánaðarins í New Hampshire í Bandaríkjunum, er gefið að sök að hafa áunnið sér traust ungra stúlkna í viðkvæmri stöðu, með það fyrir augum að kynna þær fyrir Epstein.

Maxwell hefur verið gert að sæta fangavist þar til réttað hefur verið í máli hennar. Hún hefur lýst sig saklausa af ákærunum.