Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ástæða til að ræða aldurstakmörk á rafskútur

24.07.2020 - 10:00
Mynd: RÚV / RÚV
Full ástæða er til að taka umræðu um það hvort ástæða sé til að setja aldurstakmörk á notkun á rafskútum. Þetta sagði Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri rafskútuleigunnar Hopp, í Morgunútvarpinu í morgun.

Rafskútur hafa notið mikilla vinsælda undanfarna mánuði jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Hopp er með 18 ára aldurstakmark á leigu á sínum skútum, en ekkert slíkt aldurstakmark er gegn notkun þeirra samkvæmt landslögum.

Ég held að það þyrfti að ræða það og hugsa hvort það ætti að vera eitthvað aldurstakmark. Ég held að það sé alveg skynsamlegt að hafa einhvers konar aldurstakmark á þessu,“ segir Eyþór. „Á sama tíma þá er aldrei aldurstakmark á reiðhjóli, en reiðhjól er líka ekki eitthvað sem kemst upp í 25 km hraða án þess að þú komir því upp í 25.“

Rafskúturnar hafa meðal annars ratað í umræðuna vegna slysa sem á þeim á þeim hafa orðið, eins hefur eitthvað verið um að fólk sé að tvímenna á skútunum eða aka undir áhrifum.

Hopp heldur úti 300 rafskútum sem hægt er að leigja í miðbæ og næsta nágrenni. Eyþór bendir á að það sé aðeins brotabrot af þeim rafskútur sem eru í notkun hér á landi. Þannig hafa til að mynda um 5000 rafskútur hafi þannig verið fluttar inn til einkasölu frá því í janúar í ár.

Eyþór segir öryggi farþega og gangandi vegfarenda vera í fyrirrúmi hjá Hopp. „Það er bannað að vera fleiri en einn á rafskútunum okkar og það er ekki í lagi að vera ölvaður,“ segir hann. „Á sama tíma er eiginlega allt sem við getum gert sett í þjónustusamning.“

Ýmislegt er þó að hans mati hægt að gera til að auka öryggi. „Ég held að það sem þarf að gera til þess að auka öryggi gangandi vegfarenda og skútureiðmannsins sjálfs sé allt kerfislægt,“ segir hann og kveðst sjálfur vilja sá að aka megi skútunum á götum og eins þurfi að búa til stígakerfi sem henti rafskútum.